Við gömlu gerðum okkar en þeir ungu miklu meira

Ásgeir Börkur Ásgeirsson með bikarinn á lofti eftir sigurinn á …
Ásgeir Börkur Ásgeirsson með bikarinn á lofti eftir sigurinn á ÍR. mbl.is/Golli

„Ég vissi að við myndum skapa okkur færi og að við myndum skora, það var meira um hvað við myndum skora mörg og sem betur fer skoruðum við tvö í dag,“  sagði Ásgeir Börkur Ásgeirsson fyrirliði Fylkis eftir að liðið tryggði sér sigur í 1. deild karla í gær með 2:1 sigri á ÍR í Árbænum, á meðan Keflavík tapaði fyrir HK, 2:1.

„Við byrjuðum á hælunum en vorum með markmið  og í okkar hug var mikið undir en þegar í leikinn var komið vorum við einhvern veginn ekki alveg tilbúnir í þetta verkefni.   Við sóttum samt í okkur veðrið þegar leið á og siglum titlinum heim.  Burtséð frá hvernig leikur HK og Keflavík fór, þá er ég sáttastur með að við gerðum um um okkar leik.“

Árbæingar byrjuðu deildina vel en í fimm leikjum 12. til 16. umferðar komu aðeins 5 stig í hús. „Við hefðum getað verið búnir að fá fleiri stig, misstigum okkur um miðbik mótsins í nokkra leiki en við brugðumst hárrétt við því, mættum til baka og held að við höfum endað með því að vinna sex leiki í röð.  Það er ekki hægt taka það frá okkur og bikarinn fór á loft í Árbænum svo ég get ekki verið sáttari.“

Fyrirliðinn segir ungu Árbæingana hafa gert útslagið.  „Ég held að tökumst bara á við næsta ár.  Við höldum áfram að byggja ofan á það sem við gerðum þetta árið og ég hef sagt í nokkrum viðtölum að við búum vel að því að við búum að mörgum góðum strákum, sem spiluðu sitt fyrsta tímabil sem lykilleikmenn og ég hef líka sagt að ég geti ekki lýst því hvað þessir strákar gerðu gott mót í sumar.  Bara þroskinn og viljinn ásamt ábyrgðinni á herðum sér svo ég held að þeir eigi þennan bikar mesta skilin.  Þeir gerðu sitt og miklu meira á meðan við þessir gömlu gerðum  bara það sem við áttum að gera svo allt hrósið fer til ungu strákana.“

Leikmenn Fylkis tolleruðu Helga Sigurðsson þjálfara eftir leikinn.
Leikmenn Fylkis tolleruðu Helga Sigurðsson þjálfara eftir leikinn. mbl.is/Golli

Héldum áfram umgjörð eins og í efstu deild

Í mörg horn þarf að líta ef liði á að ganga vel, ekki bara leikmenn heldur þjálfarar, starfsmenn, stjórnarmenn, stuðningsmenn og fleiri.   Fylkir féll í fyrra en ætlaði sér svo sannarlega strax upp aftur en Árbæingar vissu að það þyrfti samstillt átak, eins og Þorvaldur Árnason formaður meistaraflokksráðs karla veit svo vel. 

„Það vildu allir taka þátt í verkefninu, vera áfram og ætluðu sér upp aftur, ætluðu að sýna að liðið átti skilið ekki að falla í fyrra,“  sagði Þorvaldur þegar hans menn fögnuðu sigri á ÍR í næstefstu deild karla og um leið sigri í deildinni eftir árs fjarveru. 

„Við þurfum auðvitað skoða hvort við þurfum að styrkja liðið fyrir næsta ár en auðvitað viljum við halda uppbyggingarstarfinu, sem við erum að sinna.  Við byggjum aðallega á uppöldum leikmönnum  og allir nema tveir í hópnum eru uppaldir hjá Fylki.    Við vitum að, það að vinna deildina núna, gefur ákveðið sjálfstraust og það getur skilað sér á næsta ári.  Við þekkjum þegar Fylkir vann á sínum tíma fyrstu deildina og komst upp í efstu, það voru bestu ár Fylkis og við viljum byggja á sjálfstrausti, jákvæðni og annað, sem við öðluðumst í sumar.“ 

„Vissulega þarf allt félagið að taka þátt í að vera í efstu deild en við lögðum upp með í fyrra, þegar við féllum, að halda í ár alveg sömu umgjörð og í efstu deildinni.  Öllu sem kemur að liðinu hvort sem var teymið í kringum það, stuðningurinn,  sjúkraþjálfarar og fleira.  Við vildum halda því.  Við höfum fengið frábæra aðsókn í sumar, stemmingin verið góð og nú þarf að halda þessu góða starfi og þessari góðu umgjörð áfram.  Við vitum að við erum nokkurs konar fjölskyldu-sveitaklúbbur þar sem gott er vera og menn styðja hvorn annan til að gera eins vel og hægt er.“ 

„Þjálfarar og leikmenn sögðu í viðtölum eftir síðasta leik þegar þeir voru komnir upp að það væri ákaflega ánægjulegt að hafa tryggt sér sæti í efstu deild og það hefði verið eitt markmið en hitt markmiðið væri að vinna deildina.  Menn ætluðu að setja alla pressu á það – við þurftum bara að klára okkar hlut og sjá bara til hvernig aðrir leikir myndu spilast. Vissulega gekk það draumamarkmið upp og fyrir þessa stráka í Árbænum sem höfðu verið lengi í kringum liðið þá var það frábær stund fyrir okkur. 

Tölfræðin fyrir tímabilið sýndi að liðin sem höfðu fallið, t.d. síðustu átta árin, held ég að í öll skiptin nema eitthvað um þrisvar þá höfðu þessi lið farið upp aftur en þetta er erfið deild og ekkert sjálfsagt að fara upp og menn urðu að vinna fyrir öllu stigum og sigrum.  Það var lagt upp með það en líka að hafa jákvæðni og hafa gaman af þessu.   Leikmenn voru algerlega með í þessu en auðvitað komu leikir í sumar þegar við spiluðum ekki vel og töpuðum leikjum en alltaf komum við sterkir til baka og sýndum þannig karakter.  Í fótboltanum vinnur þú ekki alla leiki en það er þó alltaf gott að koma til baka og sýna góðan fótbolta, það sýndi sig líka að við skorum fullt af mörkum svo þetta er gleðilegur dagur.“

„Það segir líka sína sögu að þegar við vorum í nóvember að byrja æfingatímabilið,  sem er oft langt og strangt, þá sagði Helgi þjálfari við leikmenn að þeir myndu skilja 23. september árið eftir og  þá myndu þeir njóta – þá munu þeir uppskera og það gekk upp í dag.“

Ásgeir Börkur Ásgeirsson stjórnar fögnuði Fylkismanna eftir leikinn.
Ásgeir Börkur Ásgeirsson stjórnar fögnuði Fylkismanna eftir leikinn. mbl.is/Golli

Erfið fæðing en fallegt barn í lokin

„Ég held að spennustigið hafi verið mjög hátt því við vildum svo mikið vinna,“  sagði Albert Brynjar Ingason, sem skoraði 14 mörk fyrir Fylki í sumar.

„Við höfðum góða tilfinningu fyrir því að HK myndi gera sitt í dag, Jóhannes Karl þjálfari HK var  búinn að lofa því og sagði að við þyrftum bara að gera okkar.  Við töpuðum  sjálfir fyrir HK hérna heima og vitum hversu gott liðið en ég trúi ekki öðru en það sé verið að keyra einhver verðlaun til HK.  Oft í gegnum árin höfum við spilað svona leiki og oft getað náð árangi, til dæmis Evrópusæti, en þá hafa leikirnir einmitt farið þannig við klárum ekki dæmið.   Í dag héldum við áfram og þetta var erfið fæðing en fallegt barn í lokin.“

Er Albert Brynjar eitthvað farinn að spá í næsta ár?  „Það er nú bara stjórnin, sem gerir eitthvað í því.   Við leikmenn vitum aldrei hvað hún er bralla en þetta ár hefur verið frábært uppá það hvað margir yngri flokka leikmenn Fylkis hafa spilað og fengið að blómstra.  Ég held að við byggjum ofan á það og halda þessum heimakjarna.  Þegar Fylkir var að falla niður um deild og koma síðan aftur og náði sínum besta árangri í efstu deild, var þegar stemmingin fór upp með liðinu og þá var það gert á uppöldum leikmönnum.  Að sjálfsögðu vill maður sjá það gert hér hjá Fylki.“

Fylkir er meistari í 1. deild 2017.
Fylkir er meistari í 1. deild 2017. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert