Stephany og Bianca áfram með Þór/KA

Stephany Mayor og Bianca Sierra eftir að Þór/KA hafði tryggt …
Stephany Mayor og Bianca Sierra eftir að Þór/KA hafði tryggt sér Íslandsmeistaratitlinn og Stephany verið kjörin besti leikmaður deildarinnar. /mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Besti leikmaður Íslandsmóts kvenna í knattspyrnu, Stephany Mayor, hefur samið við Þór/KA um að leika áfram með Íslandsmeisturunum frá Akureyri á næsta tímabili og unnusta hennar, varnarmaðurinn Bianca Sierra, hefur sömuleiðis samið á ný, en þetta kemur fram á thorsport.is.

Stephany Mayor skoraði 19 mörk í 18 leikjum fyrir Þór/KA á nýliðnu tímabili, varð markadrottning Pepsi-deildarinnar og var jafnframt kjörin besti leikmaður deildarinnar af leikmönnum. Þetta var annað tímabil hennar með Akureyrarliðinu.

Bianca Sierra kom til liðs við Þór/KA fyrir þetta tímabil en lék í fyrra með Arna-Björnar í norsku úrvalsdeildinni. Hún var líka í stóru hlutverki í meistaraliðinu, spilaði alla 18 leikina og skoraði tvö mörk.

Báðar eru þær fastamenn í landsliði Mexíkó og eru í hópnum sem valinn hefur verið fyrir vináttulandsleiki gegn Brasilíu, Kína og Norður-Kóreu síðar í þessum mánuði. Stephany hefur spilað 58 landsleiki og skorað 11 mörk og Bianca hefur spilað 34 landsleiki.

Leikmenn Þórs/KA fagna Stephany, Biöncu og Nóa Björnssyni við undirskriftina …
Leikmenn Þórs/KA fagna Stephany, Biöncu og Nóa Björnssyni við undirskriftina í dag. Ljósmynd/thorsport.is Haraldur Ingólfsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert