Ólafur Helgi stýrir uppeldisfélaginu

Ólafur H. Kristjánsson.
Ólafur H. Kristjánsson. mbl.is/Ómar Óskarsson

Ólafur Helgi Kristjánsson skrifaði rétt í þessu undir samning þess efnis að stýra karlaliði FH í knattspyrnu næstu þrjú árin. Ólafur Helgi hætti störfum hjá Randers um síðustu mánaðamót, en skömmu síðar var Heimi Guðjónssyni sagt upp störfum hjá FH. Ólafur Helgi tekur nú við stjórnartaumunum hjá uppeldisfélagi sínu.

Ólafur Helgi lék upp alla yngri flokka FH fyrir utan skamma dvöl hjá Haukum. Ólafur Helgi lék 152 leiki með FH í meistaraflokki félagsins á árunum 1985 til 1998, en hann skoraði í þeim leikjum níu mörk. Ólafur Helgi gekk svo til liðs við KR frá FH árið 1995 og er hann því að snúa heim eftir 22 ára útlegð frá félaginu. 

Ólafur Helgi hefur þjálfað Fram og Breiðablik hér heima, en hann gerði Blika að bikarmeisturum árið 2009 í fyrsta skipti í sögu félagsins og Kópavogspiltarnir urðu síðan Íslandsmeistarar sömuleiðis í fyrsta skipti í sögu félagsins árið 2010. Ólafur Helgi hefur síðan þjálfað dönsku liðin Nordsjælland og nú síðast Randers.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert