Ólafur á bara eftir að verða betri

Sigurbjörn Hreiðarsson.
Sigurbjörn Hreiðarsson. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Sigurbjörn Hreiðarsson, aðstoðarþjálfari karlaliðs Vals í knattspyrnu, er ánægður með komu Ólafs Karls Finsen til félagsins. Ólafur skrifaði undir þriggja ára samning við Íslandsmeistarana á fréttamannafundi í dag.

„Við teljum að Ólafur hafi eiginlega sem geta nýst okkur á mjög góðan hátt. Hann getur fallið inn í okkar hugarfar á Hlíðarenda. Hann er mjög öflugur leikmaður og getur spilað víða framarlega á vellinum. Hann er áræðinn, með mikið þor og sjálfstraust. Við teljum hann vera góðan bita inn í okkar góða liðsheild.“

„Hann getur spilað framarlega á miðjunni, frammi og á kantinum. Hans eiginleikar geta nýst á mörgum stöðum hjá okkur.“

Ólafur sleit krossband á síðasta ári en spilaði 12 leiki með Stjörnunni í sumar. Sigurbjörn á von á að Ólafur eigi bara eftir að verða betri. 

„Við teljum að hann verði upp á sitt besta þegar hann spilar með okkur. Meiningin er að ná honum í það. Hann kom inn í sumar og spilaði seinni hlutann á mótinu og átti góða spretti inn á milli. Hann á bara eftir að vera betri og við ætlumst til þess og ætlum að gera hann betri.“

Á fréttamannafundinum var sagt að fleiri fréttir af leikmannahópi Vals væru væntanlegar. 

„Það kemur í ljós, það verða einhverjar fréttir, er þetta ekki bara sagt? Það er betra að segja það en að það væru engar fréttir. Við sjáum hvað setur,“ sagði Sigurbjörn að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert