Fínn möguleiki á að komast áfram á HM

Gylfi Þór Sigurðsson á ferðinni í leiknum við Kósóvó þar …
Gylfi Þór Sigurðsson á ferðinni í leiknum við Kósóvó þar sem Ísland tryggði sér endanlega sæti á HM í fyrsta sinn. mbl.is/Golli

Gylfi Þór Sigurðsson er í viðtali á forsíðu heimasíðu FIFA, alþjóða knattspyrnusambandsins, í dag vegna árangurs íslenska landsliðsins sem leikur í fyrsta sinn á HM í Rússlandi næsta sumar.

Í viðtalinu ræðir Gylfi um það hvernig íslenska liðið hafi þroskast og orðið sífellt betra á síðustu árum, og sé orðið vant því og betra í að leika mikilvæga leiki. Liðið hafi einfaldlega spilað hvern mikilvæga leikinn eftir annan síðustu árin. Nú tekur svo fyrsta heimsmeistaramótið við þar sem Ísland verður í riðli með þremur öðrum liðum, en dregið verður í riðla 1. desember. Efstu tvö lið hvers riðils komast áfram í 16-liða úrslit keppninnar og þangað stefnir Gylfi:

„Við verðum að sjá til hvernig riðillinn okkar verður en ég tel að við eigum góða möguleika á að komast áfram úr riðlakeppninni. Við vitum að það verður erfitt en við höfum engu að tapa og ég held að við förum á HM með sama hugarfari og á EM,“ sagði Gylfi, en Ísland kom flestum á óvart með því að komast í 8-liða úrslit á EM í Frakklandi í fyrra. Það var fyrsta stórmót karlalandsliðsins en ekkert íslensk knattspyrnulandslið hefur leikið í lokakeppni HM:

„Þetta er eitthvað sem við höfum öll verið að bíða eftir í islenskum fótbolta – að komast á HM. Það er bara stórkostlegt að það skuli núna vera að takast og ég held að við leikmennirnir og allir á Íslandi séu mjög stoltir. Við hlökkum mikið til að fara til Rússlands og auðvitað að sjá víkingaklappið á HM,“ sagði Gylfi á vef FIFA.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert