Naumt íslenskt tap í Katar

Tékkar fagna fyrsta marki leiksins.
Tékkar fagna fyrsta marki leiksins. Ljósmynd/Twitter-síða tékkneska knattspyrnusambandsins

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu varð að gera sér að góðu að tapa gegn Tékkum, 2:1 í fyrri leik sínum á alþjóðlega mótinu í Katar í dag. Tékkar komust í 2:0, en Kjartan Henry Finnbogason minnkaði muninn í síðari hálfleik og þar við sat. 

Íslenska liðið byrjaði leikinn af krafti og Viðar Örn Kjartansson fékk sannkallað dauðafæri eftir aðeins þriggja mínútna leik. Hörður Björgvin Magnússon tók þá langt innkast sem Kári Árnason skallaði fyrir fætur Viðars sem var aleinn á fjærstöng með opið mark fyrir framan sig. Framherjinn skaut hins vegar í stöngina. Mínútu síðar átti Ari Freyr Skúlason ágæta tilraun en skot hans utan teigs fór rétt framhjá.

Kjartan Henry Finnbogason bjó sér til fínt færi á 13. mínútu en skotið hans innan teigs fór naumlega framhjá. Á 15. mínútu höfðu Íslendingar heppnina með sér því Michal Krmenicík setti boltann í markið af stuttu færi eftir misheppnaða sendingu Ólafs Inga Skúlasonar en sá tékkneski var flaggaður rangstæður, sem virtist rangur dómur.

Tékkland komst hins vegar yfir á 19. mínútu er Ísland var fellt á eigin bragði. Tékkar tóku þá langt innkast og Tomás Soucek komst í boltann á undan Kára Árnasyni og skoraði framhjá Rúnari Alex Rúnarssyni sem var að spila sinn fyrsta landsleik í íslenska markinu.

Kjartan Henry fékk svo ákjósanlegt færi á 39. mínútu er Ari Freyr Skúlason átti fallega stungusendingu á framherjann sem fór framhjá Tomás Vaclík í marki Tékka en skotið hans var algjörlega misheppnað og varnarmaður Tékka bjargaði. Það reyndist síðasta alvöru færi hálfleiksins og var staðan því 1:0, Tékkum í vil í leikhléi.

Ísland byrjaði seinni hálfleikinn nokkuð vel og fékk nokkur fín færi. Ekki gekk að nýta þau frekar en í fyrri hálfleik og á 65. mínútu refsuðu Tékkar. Varamaðurinn Jan Sýkora skoraði þá með föstu skoti frá vítapunkti og þrátt fyrir fína tilraun Rúnars í markinu, lak boltinn inn.

Íslenska liðið minnkaði muninn á 77. mínútu er Kjartan Henry skallaði í netið af stuttu færi eftir fallega fyrirgjöf varamannsins Theodórs Elmars Bjarnasonar. Það reyndist síðasta alvöru færi leiksins og naumt tap raunin. 

Tékkland 2:1 Ísland opna loka
90. mín. Leik lokið Ísland þarf að sætta sig við ósigur. Það voru fínir kaflar í þessum leik en það dugði ekki til.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert