Ísland missti sigurinn í uppbótartíma

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu fékk á sig jöfnunarmark í uppbótartíma og gerði jafntefli við Katar, 1:1, þegar þjóðirnar áttust við í lokaleiknum á alþjóðlega mótinu á Khalifa Stadium í Doha í dag.

Leikurinn var frekar jafn í fyrri hálfleik og það var greinilegt frá fyrstu mínútu að lið Katar hefur á að skipa sprækum leikmönnum. Þeir fengu fleiri færi í byrjun en fyrsta alvörufæri Íslands kom á 25. mínútu þegar Gylfi Þór Sigurðsson átti skot úr aukaspyrnu sem var varið.

Strax í kjölfarið komst Ísland hins vegar yfir. Eftir langa markspyrnu fleytti Gylfi boltanum inn á teig, eftir mistök í vörninni datt hann fyrir Viðar Örn Kjartansson sem skilaði boltanum laglega í netið og skoraði sitt annað landsliðsmark í 16. leiknum. Staðan 1:0 fyrir Ísland og þannig var hún í hálfleik þrátt fyrir að Katar hafi pressað undir lok fyrri hálfleiksins.

Heimir Hallgrímsson gerði fjórar breytingar á íslenska liðinu í hálfleik og breytti jafnframt um skipulag, var með þrjá miðverði og færði þá Diego Jóhannesson og Ara Freyr Skúlason í stöðu vængbakvarða. Ísland lá djúpt til baka eftir hlé á meðan Katar pressaði stíft, án þess þó að skapa sér hættuleg færi.

Þannig gekk síðari hálfleikurinn. Íslenska liðið gaf fá færi á sér en sótti að sama skapi lítið og var ekki líklegt til þess að bæta við forskot sitt. Vörnin virtist ætla að tryggja íslenska liðinu sigurinn en í uppbótartíma kom áfallið.

Vörnin virtist vera búin að stimpla sig út þegar há sending kom inn á teiginn, Mohammed Muntari tók vel á móti boltanum og skilaði honum í netið fram hjá Ingvari Jónssyni. Lokatölur 1:1 í síðasta landsleik Íslands á árinu og Tékkar fengu 6 stig á mótinu, Ísland eitt og Katar 1.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

Katar 1:1 Ísland opna loka
90. mín. Það verða að minnsta kosti þrjár mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert