Blundaði í mér Valsari

Hallbera Guðný Gísladóttir eftir undirritun samnings við Val síðdegis.
Hallbera Guðný Gísladóttir eftir undirritun samnings við Val síðdegis. mbl.is/Ívar

„Ég fór til Svíþjóðar með því hugarfari að vera aðeins eitt ár ytra nema eitthvað skemmtilegt kæmi upp í framhaldinu. Eftir tímabilið í Svíþjóð þá ákvað ég að koma heim og byrjað að vinna, huga að framtíðinni,“ sagði Hallbera Guðný Gísladóttir, landsliðskona í knattspyrnu, við mbl.is í dag eftir að hún skrifaði undir þriggja ára samning við Val.

Hallbera Guðný sagðist einnig hafa rætt við forráðamenn Breiðabliks, en hún lék með Kópavogsliðinu sumarið 2016. „Þegar á hólminn var komið blundaði í mér Valsmaður,“ sagði Hallbera Guðný glöð í bragði en hún lék með Djurgården í Svíþjóð á nýliðnu keppnistímabili.

„Ég þekki vel hjá Val og þá sem starfa fyrir félagið. Mér liður fyrst og síðast vel með þessa ákvörðun,“ sagði Hallbera Guðný sem reiknar ekki með að fara út til Evrópu á nýjan leik til þess að leika með félagsliði.

„Ég reikna með því. Þessi tími minn ytra var góður en nú er ég komin með fasta vinnu og þarf að velta fyrir mér framtíðinni, lífinu sem tekur við þegar farið er að styttast í fótboltaferlinum. Ég er spennt fyrir að koma heim og vera meira með mínu fólki.“

Hallbera Guðný segist síður svo að ætla að gefa landsliðsferilinn upp á bátinn. Hún á að baki 90 landsleiki og langar að hafa þá fleiri og taka af krafti þátt í undankeppni heimsmeistaramótsins með landsliðinu. „Það eru spennandi tímar framundan hjá landsliðinu. Ég ætla að æfa af sama krafti og áður, það mun ekkert breytast þótt ég verði ekki áfram atvinnumaður í fótbolta.  Markmiðið  er halda áfram af krafti með landsliðinu. Ef við höldum rétt á spilunum þá getur eitthvað skemmtilegt gerst sem mig langar að vera þátttakandi í,“ sagði Hallbera Guðný Gísladóttir, ný leikmaður Vals í knattspyrnu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert