Rakel samdi við Limhamn Bunkeflo

Rakel Hönnudóttir.
Rakel Hönnudóttir. mbl.is/Golli

Rakel Hönnudóttir, landsliðskona í knattspyrnu, samdi í morgun við sænska úrvalsdeildarliðið Limhamn Bunkeflo 07.

Með félaginu, sem er í Malmö, leikur landsliðskonan Anna Björk Kristjánsdóttir. Liðið var nýliði í sænsku úrvalsdeildinni í ár og hafnaði í 9. sæti af 12 liðum í deildinni.

Rakel er 29 ára gömul sem leikið hefur með Breiðabliki frá árinu 2012 og hefur verið fyrirliði liðsins undanfarin ár en þar áður spilaði hún með liði Þórs/KA. Rakel hefur verið fastamaður í íslenska landsliðinu undanfarin ár. Hún hefur spilað 85 landsleiki og hefur í þeim skorað 5 mörk.

Unnusti Rakelar er Andri Rúnar Bjarnason sem varð markakóngur Pepsi-deildarinnar í ár en hann skoraði 19 mörk fyrir Grindvíkinga og jafnaði markametið í efstu deild. Andri Rúnar samdi á dögunum við sænska B-deildarliðið Helsingborg sem er í borg skammt frá Malmö.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert