Hvað segja heimamenn um mótherja Íslands?

Brasilíumaðurinn Cafu dró Ísland úr pottinum.
Brasilíumaðurinn Cafu dró Ísland úr pottinum. AFP

Enska dagblaðið The Guardian fékk fjölmiðil eða íþróttafréttamann frá hverri þjóð sem á fulltrúa á HM til að skrifa um landslið sitt fyrir riðladráttinn á heimsmeistaramóti karla í knattspyrnu 2018.

Morgunblaðið og mbl.is hafa verið í samstarfi við The Guardian í umfjöllun um Evrópumót karla og kvenna undanfarin ár og nú heldur það áfram í tengslum við heimsmeistaramótið í Rússlandi.

Hér má sjá umfjöllun um þær þrjár þjóðir sem eru með Íslandi í D-riðli heimsmeistarakeppninnar næsta sumar.

Argentínski íþróttafréttamaðurinn Cristian Grosso á La Nacón skrifar um Argentínu, Aleksandar Holiga á Telsport skrifar um Króatíu og Solomon Fowowe á The Guardian skrifar um Nígeríu.

Argentína

Argentínska liðið er gríðarlega sterkt.
Argentínska liðið er gríðarlega sterkt. Ljósmynd/FIFA

Cristian Grosso á La Nación skrifar: 

Nokkrir af leikmönnum Argentínu gætu leikið sinn síðasta leik fyrir landsliðið í Rússlandi. Sergio Romero, Ángel Di María, Sergio Agüero, Gonzalo Higuaín, Lucas Biglia og Éver Banega eru allir líklegir til að hætta með landsliðinu eftir mótið. 

Það er núna eða aldrei fyrir Lionel Messi. Eina sem hann á eftir að vinna sem leikmaður er með landsliðinu og núna er tækifærið. Argentína hefur ekki unnið HM síðan 1986 og er Jorge Sampaoli, landsliðsþjálfari, líklegur til að spila mikinn sóknarbolta, enda með leikmenn til þess. Varnarleikurinn hefur hins vegar verið hausverkur. Gabriel Mercado, Javier Mascherano og Nicolás Otamendi fá líklegast það verkefni að standa vörnina með Lucas Biglia og Enzo Pérez á miðjunni. 

Þar fyrir framan er hver stórstjarnan á fætur annarri sem getur unnið leiki upp á sitt einsdæmi og eins og alltaf, verður spennandi að sjá Argentínu. 

Hvernig komst Argentína á HM: Þriðja sæti á eftir Brasilíu og Úrúgvæ í undankeppninni í Suður-Ameríku

Leikaðferð: 3-4-3

Stjarnan: Lionel Messi (Barcelona)

Leikmaður til að fylgjast með: Paulo Dybala (Juventus)

Þjálfari: Jorge Sampaoli

Hvað gerir Messi á móti Íslandi?
Hvað gerir Messi á móti Íslandi? AFP

Króatía

Við mætum Króatíu enn og aftur.
Við mætum Króatíu enn og aftur. AFP

Aleksandar Holiga á Telsport skrifar: 

Eins og venjulega urðu úrslitin verri eftir því sem leið á undankeppnina og eins og venjulega var þjálfarinn rekinn. Zlatko Dalic var ráðinn tveimur dögum fyrir síðasta leikinn í riðlakeppninni og tókst að tryggja umspilssætið. Króatía vann svo Grikkland örugglega í umspilinu. 

Luka Modric er 32 ára og flestir aðrir í byrjunarliðinu í lokakeppninni verða 29 ára eða eldri og því gæti þetta verið þeirra síðasta mót fyrir landsliðið til að gera stóra hluti. Þetta er besta kynslóð Króata síðan árið 1998 þegar þeir náðu í brons á HM. Það er hins vegar vesen innan knattspyrnusambandsins, á meðal stuðningsmanna, pressunnar og það hefur verið erfitt fyrir liðið að einbeita sér að því að spila fótbolta.

Hvernig komst Króatía á HM: Lenti í 2. sæti á eftir Íslandi í undankeppninni og vann Grikkland í umspili. 

Leikaðferð: 4-2-3-1

Stjarnan: Luka Modric (Real Madrid)

Leikmaður til að fylgjast með: Nikola Vlasic (Everton)

Þjálfari: Zlatko Dalic

Luka Modric er allur í öllu hjá Króatíu.
Luka Modric er allur í öllu hjá Króatíu. AFP

Nígería

Nígería hefur spilað vel að undanförnu.
Nígería hefur spilað vel að undanförnu. AFP

Solomon Fowowe á The Guardian í Nígeríu skrifar: 

Nígería var í erfiðum riðli í undankeppninni með Alsír, Kamerún og Afríkumeisturum Sambíu. Þrátt fyrir það tryggði þjóðin sér sæti á HM þegar einn leikur var eftir og eru stuðningsmennirnir virkilega jákvæðir og spenntir. 

Nígería vann svo Argentínu í vináttuleik í Rússlandi og ekki minnkaði spennan við það. Gernot Rohr er að gera virkilega góða hluti með liðið og eru yngri leikmenn að standa sig mjög vel. Nígería komst ekki í Afríkukeppnina í síðustu tvö skipti og er því afrek að komast á HM. 

Nígería hefur aðeins tapað einum leik síðan Þjóðverjinn tók við. Liðið er sérstaklega hættulegt í skyndisóknum með þá Alex Iwobi (Arsenal) og Victor Moses (Chelsea) í stöðu vængbakverða. John Obi Mikel er enn í fullu fjöri á miðjunni. 

Nígerska knattspyrnusambandið ætlar ekki að endurtaka leikinn frá því árið 2014 þegar leikmenn neituðu að æfa fyrir leik gegn Frökkum vegna ógreiddra launa. Rohr er með tveggja ára samning við sambandið og ætti framtíðin því að vera björt. 

Hvernig komst Nígería á HM: Vann B-riðil í undankeppninni í Afríku. 

Leikaðferð: 4-3-3

Stjarnan: Victor Moses (Chelsea)

Leikmaður til að fylgjast með: Alexander Iwobi (Arsenal)

Þjálfari: Gernot Rohr

Victor Moses hefur spilað vel með Chelsea að undanförnu.
Victor Moses hefur spilað vel með Chelsea að undanförnu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert