Ísland með bestu stuðningsmenn Evrópu

Gernot Rohr var kátur er dregið var í riðla í …
Gernot Rohr var kátur er dregið var í riðla í dag. AFP

Gernot Rohr, landsliðsþjálfari Nígeríu er spenntur að mæta Íslandi á HM í knattspyrnu í Rússlandi næsta sumar. Hann segir Íslenska liðið mjög gott og segir stuðningsmenn þess þá bestu í Evrópu. 

„Ísland er með mjög gott og líkamlega sterkt lið. Stuðningsmennirnir eru þeir bestu í Evrópu og við munum eftir þeim frá EM. Þetta er áhugaverður riðill og lokaleikurinn gegn Argentínu gæti orðið úrslitaleikur fyrir okkur," sagði Rohr í samtali við knattspyrnusamband Nígeríu. 

Rohr er 64 ára gamall Þjóðverji sem lék með Bayern München, Mannheim og Offenbach í Þýskalandi og síðan yfir 350 leiki með Bordeaux í frakklandi. Hann hefur þjálfað félagslið í Frakklandi og Sviss en verið landsliðsþjálfari í Afríku frá 2010. Fyrst með landslið Gabon, þá Níger, síðan Burkina Faso og hann tók síðan við Nígeríu árið 2016.

Undir hans stjórn fór Nígería taplaus í gegnum undankeppni HM og varð fyrst Afríkuþjóða til að tryggja sér sæti í lokakeppninni í Rússlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert