Kolbeinn stefnir á endurkomu í febrúar

Kolbeinn Sigþórsson
Kolbeinn Sigþórsson mbl.is/Eggert Jóhannesson

Knattspyrnumaðurinn Kolbeinn Sigþórsson leikmaður franska liðsins Nantes stefnir á endurkomu í febrúar en hann hefur verið frá keppni í marga mánuði vegna hnémeiðsla. Ef allt gengur að óskum gæti hann snúið til baka í íslenska landsliðið og spilað með því á HM næsta sumar.

Frá þessu er greint á Vísi.is í dag en þar kemur fram að Kolbeinn sé í endurhæfingu í Katar og sé byrjaður að æfa með boltann að sögn Andra Sigþórssonar bróður Kolbeins.

Kolbeinn gekkst undir aðgerð á hné í sumar en hún skilaði ekki tilætluðum árangri. Um tíma var ótt­ast að fer­ill Kol­beins væri á enda en hann hef­ur ekki spilað fót­bolta­leik síðan í ág­úst 2016, skömmu eft­ir að hafa leikið lyk­il­hlut­verk í að koma ís­lenska landsliðinu alla leið í 8 liða úr­slit Evr­ópu­móts­ins í Frakklandi. Síðan þá hef­ur hann verið lánaður til Galatas­aray í Tyrklandi, en spilaði þar ekki leik vegna meiðsla.

Heimir Hallgrímsson landsliðsþjálfari sagði á fréttamannafundi í byrjun síðasta mánaðar þegar hann var spurður út í Kolbein;

Hann er að fara af stað og það er opið pláss fyr­ir hann eins og alla aðra. Það verður spenn­andi að sjá hvernig hann kem­ur til baka eft­ir löng og erfið meiðsli. En hann á sinn mögu­leika eins og all­ir aðrir. Hann finn­ur ekki til þegar hann hleyp­ur eft­ir því sem við best vit­um og von­andi kemst hann aft­ur á skrið,“ sagði Heim­ir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert