Aldrei upplifað annað eins

Eiður Smári Guðjohnsen á leið inná völlinn í leik Íslands …
Eiður Smári Guðjohnsen á leið inná völlinn í leik Íslands og Ungverjalands. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Eiður Smári Guðjohnsen segir að það skipti meira máli að Ísland skuli vera í sextán liða úrslitum Evrópukeppninnar í knattspyrnu, en að England skuli vera andstæðingurinn í Nice á mánudagskvöldið.

Eiður fékk fjölda spurninga á fréttamannafundinum í Annecy í dag, auk þeirra sem þegar hefur verið sagt frá í fyrri fréttum af fundinum hér á mbl.is.

„Ég er spenntur og afar ánægður með að vera hérna eins og allir aðrir. Það má vissulega segja að það sé sérstakt fyrir okkur að mæta Englandi. Enski fótboltinn hefur haft gífurleg áhrif á þann íslenska og margar kynslóðir á Íslandi hafa stutt ensk lið. Tengslin eru geysilega mikil. En hvað okkur varðar erum við spenntari yfir því að vera komnir í sextán liða úrslitin á EM, frekar en að við séum spenntir yfir því hverjum við erum að fara að mæta,“ sagði Eiður.

Hvernig berðu saman að leika með félagsliði og að leika með íslenska landsliðinu?

„Það er erfitt að bera þetta saman. Á árum áður vann landsliðið bara einn og einn leik, og það var alltaf meira við það en að vinna venjulegan sigur í deildaleik með félagsliðinu. Nú erum við á stærra sviði en það er ekki hægt að bera þetta saman við það að vinna titla. En tilfinningin fyrir því að koma fram fyrir hönd þjóðar okkar er alltaf sérstök, en kannski enn meiri núna.“

Stærsti leikurinn í sögunni

Er leikurinn við England stærsti leikurinn í sögu Íslands?

„Ég held að undanfarin tvö ár höfum við sagt fyrir hvern einasta landsleik að hann sé sá stærsti í sögu íslenskrar knattspyrnu. Sú stund er enn og aftur runnin upp, þetta er stærsti leikur í íslensku knattspyrnusögunni.“

Getið þið unnið England?

„Já, það er allt hægt í fótbolta. Ef við horfum raunsætt á hlutina erum við litla liðið í þessum leik en við höfum sýnt með því að vera hérna, og með því hvernig við komumst hingað, hvað við getum gert. Við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að framlengja dvölina. Þetta snýst ekkert um að geta stært sig af einhverju eftir leik. Við þurfum að spila okkar leik, gefa allt í hann, og ef það fleytir okkur áfram í keppninni er það frábært. Ef það tekst ekki vona ég að England verði Evrópumeistari.“

Sorglegt að ekki fleiri fái miða

Mun færri íslenskir áhorfendur fengu miða á leikinn í Nice en í hinum leikjunum. Hvað finnst þér um það?

„Þetta er pínulítið sorglegt, miðað við allan áhugann heima á Íslandi og stemmninguna sem hefur myndast. Mér finnst þetta erfiður biti að kyngja.“

Hvernig er hugarfar ykkar fyrir leikinn gegn Englandi, var það ekki draumur að mæta enska liðinu?

„Ég held að hugarfarið verði það sama og alltaf. Ég er ekki viss um að draumur okkar hafi sérstaklega ræst með því að mæta Englandi á stórmóti. Hins vegar hefur sá draumur okkar að spila á stórmóti ræst. Því lengra sem við komumst, því erfiðari verður andstæðingurinn. Það sem er sérstakt við það að mæta enska liðinu er að allir á Íslandi alast upp við að fylgjast með ensku knattspyrnunni, og það er sérstakt að mæta þeim í þessari stöðu.

Við förum með sama hugarfari í þennan leik og alla aðra. Við erum komnir með reynslu af því að spila við stærri þjóðir og staðan er yfirleitt þannig. Við breytum ekki okkar hugarfari. Hver er okkar styrkleiki? Við verðum að virða hann og spila út frá honum.“

Okkar væntingar náð lengra en annarra

Hvers vegna hefur það ekki virst há liði Íslands að vera í fyrsta sinn á stórmóti?

„Sennilega er það vegna þess að væntingar í okkar garð voru ekki mjög miklar, og við vitum meira um styrkleika okkar og gæði en aðrir. Okkar væntingar hafa alltaf náð lengra en þær sem aðrir hafa gert til okkar. Svo er það samstaðan í þessu liði sem er einstök. Ég hef aldrei upplifað annað eins á þeim tuttugu árum sem ég hef leikið með landsliðinu. Með hana að vopni er hægt að ná mjög langt.“

Hvernig upplifðir þú sigurinn gegn Austurríki?

„Ég viðurkenni að ég var mjög stressaður eftir því hvernig leikurinn þróaðist því við bökkuðum og bökkuðum og vorum komnir mjög aftarlega. En þegar við skoruðum sigurmarkið misstu allir hausinn, enda var þetta stærsta stundin fyrir okkur alla. Ekki bara þá sem voru inni á vellinum heldur okkur öll, fólkið sem var heima hjá sér og við sáum viðbrögðin hjá þjóðinni. Sennilega höfum við öll upplifað þetta á svipaðan hátt,“ sagði Eiður Smári Guðjohnsen.

mbl.is

LEIKIR Í DAG - 28. MARS

Útsláttarkeppnin

LEIKIR Í DAG - 28. MARS

Útsláttarkeppnin