Enginn ánægður á bekknum

Eiður Smári Guðjohnsen í leikslok í leiknum við Ungverja.
Eiður Smári Guðjohnsen í leikslok í leiknum við Ungverja. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Eiður Smári Guðjohnsen hefur aðeins komið við sögu í tæpar tíu mínútur á Evrópumótinu i Frakklandi. Hann kveðst aldrei vera sáttur við að sitja á bekknum en reyni hins vegar að nýta tímann þar sem best.

Eiður kom inn á á lokamínútunum gegn Ungverjum, þar sem engu munaði að hann næði að skora sigurmarkið með síðustu spyrnu leiksins, en hefur setið á bekknum í hinum tveimur leikjunum. Hann var spurður um þetta hlutskipti sitt á fréttamannafundinum í Annecy í morgun og hvort hann teldi sig vera góðan áhorfanda.

„Ég er góður áhorfandi að því leyti að ég reyni að greina leikinn og leita lausna sem ég gæti nýtt ef ég kem inn á. Ég sit ekki glaður og ánægður yfir því að vera á bekknum en þegar ég er þar tek ég þátt í leiknum en horfi ekki sem áhorfandi. Ég reyni að sjá hvað er í gangi og finna eitthvað sem ég get lagt til málanna í hálfleik eða eftir leikinn,“ sagði Eiður.

„Enginn fótboltamaður er ánægður með það hlutverk að sitja á varamannabekknum. Það þýðir hins vegar ekki að ég sé ósáttur við mitt hlutverk í þessu liði. Heiðarlegasta svarið er að allir vilja spila sem mest en hér snýst þetta ekki um það. Hér snýst allt um samstöðuna og að hver maður taki sínu hlutverki af fullri ábyrgð,“ sagði Eiður Smári Guðjohnsen.

mbl.is

LEIKIR Í DAG - 29. MARS

Útsláttarkeppnin

LEIKIR Í DAG - 29. MARS

Útsláttarkeppnin