Félög sem ég elska

Eiður Smári Guðjohnsen í Annecy.
Eiður Smári Guðjohnsen í Annecy. AFP

Eiður Smári Guðjohnsen segir að Chelsea og Bolton séu meira en bara knattspyrnufélög í sínum augum en enskir fréttamenn spurðu hann mikið út í ferilinn á fréttamannafundi íslenska landsliðsins í Annecy í morgun.

Eiður lék með Bolton 1998 til 2000 og aftur 2014–15, og með Chelsea frá 2000 til 2006 þar sem hann varð tvívegis enskur meistari.

„Tvö ensk félög eru meira en bara félög í mínum augum, þau eru eitthvað meira en það, og þar á ég við Bolton og Chelsea. Þetta eru ekki bara einhver fyrrverandi félög. Þetta eru félög sem ég ber miklar tilfinningar til og elska eftir dvöl mína þar,“ sagði Eiður.

„Chelsea er á sérstökum stalli, þar kynntist ég fyrst alvöruárangri og ég hugsa ávallt hlýtt til míns tíma þar. Chelsea er mitt félag númer eitt í fótboltanum. Það var að sjálfsögðu frábær upplifun að leika með Barcelona en hlutverk mitt hjá Chelsea og árangurinn sem ég náði þar gerir tímann þar að þeim besta á mínum ferli.“

Spurður um hvort hann heyrði oft í gömlu liðsfélögunum hjá Chelsea svaraði Eiður:

„Nei, ég er ekki í sambandi við leikmennina að neinu ráði lengur. Fótboltinn er stundum skrýtinn heimur, þú eyðir löngum tíma með sömu leikmönnum, dögum saman, árum saman, og svo skilur leiðir og samböndin rofna. En Frank Lampard er reyndar nýbúinn að senda mér textaskilaboð – honum fannst fyndið að við skyldum vera að fara að mæta Englandi!“ sagði Eiður Smári Guðjohnsen.

mbl.is

LEIKIR Í DAG - 24. APRÍL

Útsláttarkeppnin

LEIKIR Í DAG - 24. APRÍL

Útsláttarkeppnin