Quaresma skaut Portúgal í 8-liða úrslitin

Ricardo Quaresma fagnar marki sínu í kvöld.
Ricardo Quaresma fagnar marki sínu í kvöld. AFP

Portúgal er komið í 8-liða úrslit Evrópumótsins í knattspyrnu eftir 1:0 sigur á Króatíu en sigurmarkið kom undir lok framlengingar. Portúgal mætir Póllandi í 8-liða úrslitum.

Króatar voru með öll völd á leiknum á meðan portúgalska liðið datt aftarlega á völlinn. Pepe átti hættulegasta færi portúgalska liðsins er hann stangaði boltann yfir af stuttu færi á 25. mínútu en stuttu síðar átti Ivan Perisic, leikmaður Króatíu, gott skot með vinstri fæti sem fór framhjá markinu.

Lítið var um dauðafæri í síðari hálfleik. Marcelo Brozovic átti fínt færi fyrir Króatíu á 53. mínútu en hann skóflaði þá boltanum yfir markið af stuttu færi. Luis Nani vildi fá vítaspyrnu á 63. mínútu er það var sparkað aftan í hann í teignum en ekkert var dæmt.

Staðan var markalaus þegar flautað var til loka síðari hálfleiks og fór því leikurinn í framlengingu sem reyndist vera dramatísk. Króatíska liðið var með mikla yfirburði í framlengingunni en náði þó ekki að skapa sér mikið fyrr en í síðari hálfleiknum.

Liðið fékk dauðafæri á 116. mínútu. Þá kom bolti inn í teig sem Perisic náði að stanga í átt að markinu en boltinn fór í stöng. Í næstu sókn keyrði portúgalska liðið upp. Renato Sanches sendi þá boltann vinstra megin í teiginn þar sem Nani var, hann renndi honum fyrir markið á Ronaldo sem lét vaða en Subacic varði boltann út á Ricardo Quaresma sem skallaði boltann í markið.

Króatar sóttu án afláts undir lokin og fengu tvö álitleg færi en nýttu þó ekki. Portúgal því komið áfram í 8-liða úrslit og mæta þar Póllandi sem vann Sviss eftir vítaspyrnukeppni í dag.

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.

Leik lokið. Portúgal er komið í 8-liða úrslitin eftir dramatískan lokakafla. Liðið mætir Póllandi í 8-liða úrslitum.

119. Króatar búnir að eiga framlenginguna skuldlaust og fá svo á sig mark úr skyndisókn. Stuttu fyrir markið áttu þeir skalla í stöng. Þetta er afar svekkjandi fyrir Króata sem eru á leið heim með sárt ennið.

117. MAAAAAAAAARK!!!! Króatía 0:1 Portúgal. RICARDO QUARESMA ER AÐ SKORA!!!!! Liðið keyrði í skyndisókn sem Renato Sanches stýrði. Hann fann Nani vinstra megin sem lagði boltann fyrir markið á Ronaldo. Hann skaut á markið, Subacic varði, en Quaresma stangaði boltann í netið af stuttu færi.

114. Króatíska liðið er líklegra þessa stundina. Fengu gott skallafæri eftir hornspyrnu en boltinn fór yfir markið.

106. Síðari hálfleikur er kominn af stað.

Hálfleikur.

100. Króatar að spila vel. Þeir eru að herja á mark portúgalska liðsins.

94. Perisic með skalla rétt yfir markið. Ágætis tilraun þó svo boltinn hafi farið hátt upp í loftið og endað á þaknetinu.

91. Þetta er farið af stað.

Framlenging

90. Dómarinn flautar til loka síðari hálfleiks. Þessi leikur fer í framlengingu!

90. Lítið að gerast síðasta hálftímann. Þetta virðist stefna í framlengingu og mögulega vítaspyrnukeppni. Við fylgjumst auðvitað með því.

63. Nani vill fá víti. Hann hefur eitthvað til síns máls, það er sparkað aftan í hann þegar hann ætlar að beita sér.

57. Renato Sanchez með ágætis skot þarna. Hann og Joao Mario léku vel sín á milli áður en Sanches lét vaða í skot fyrir utan teig en það fór rétt framhjá markinu.

53. BROZOVIC MEÐ SKOT!!! Frábært skot þarna. Fékk boltann í teignum en hann skóflaði honum rétt yfir markið.

46. Síðari hálfleikur er hafinn.

Hálfleikur.

30. PERISIC!!! Frábært skot hjá honum en boltinn fer rétt framhjá markinu. Loksins erum við að fá færi í þennan leik.

25. PEPE!!! Raphael Guerreiro með frábæra aukaspyrnu beint á hausinn á Pepe sem stangar boltann rétt yfir markið. Hættulegasta færið til þessa!

19. Ekki fallegasti bolti sem hefur verið spilaður. Margir leikmenn þó með skemmtilegar hárgreiðslur. Ivan Perisic ber höfuð og herðar yfir alla á vellinum en hann er með skemmtilega útfærslu af króatíska fánanum á höfðinu.

11. Það er mikill hraði í byrjun leiks. Liðin þó ekki að skapa sér neitt. Þetta verður stál í stál!

1. Leikurinn er hafinn.

0. Fylgst verður með öllu því helsta í lýsingunni hér að ofan.

Portúgal: Rui Patrício; Cedric, Pepe, Fonte, Guerreiro; Carvalho, Gomes, Adrien, Mario; Nani, Ronaldo

Króatía: Subacic; Srna, Corluka, Vida, Strinic; Modric, Badelj; Rakitic, Brozovic, Perisic; Mandzukic

mbl.is

LEIKIR Í DAG - 28. MARS

Útsláttarkeppnin

LEIKIR Í DAG - 28. MARS

Útsláttarkeppnin