Sagði ekkert á þessum nótum

Eiður Smári Guðjohnsen í Annecy.
Eiður Smári Guðjohnsen í Annecy. AFP

Eiður Smári Guðjohnsen var spurður á fréttamannafundi í Annecy fyrir stundu hvað hann hefði sagt á liðsfundi íslenska landsliðsins í knattspyrnu eftir sigurinn á Austurríki.

Lars Lagerbäck, annar landsliðsþjálfara Íslands, sagði frá því á fréttamannafundi í gærmorgun að Eiður hefði staðið upp á fundinum og spurt hvort leikmenn væru sáttir eða hvort þeir vildu ná lengra.

„Við vöknuðum allir afar ánægðir eftir sigurinn á Austurríki og í skýjunum yfir því að vera komnir í sextán liða úrslitin. Ég spurði bara hvort við værum sáttir og hefðum náð takmarki okkar, eða hvort við hefðum það í okkur að fara enn lengra. Hvort við ættum að gera meira en að vera bara sáttir við að ná þangað sem við hefðum náð. Hvort við ættum ekki að gefa enn meira í og setja enn meiri kraft í að ná enn lengra,“ sagði Eiður.

Einhverjir enskir fjölmiðlar túlkuðu í gær frásögn Lars Lagerbäcks af hvatningarorðum Eiðs á þann hátt að hann hefði gagnrýnt að liðið skyldi ekki spila betri sóknarleik. Hann vísaði þessu alfarið á bug.

„Ég sagði ekkert á þessum nótum, enda þarf liðið að spila samkvæmt því sem hentar því best. Ef ég færi að hvetja okkur til að spila blússandi sóknarleik væri ég ekki að sýna okkar helstu styrkleikum virðingu,“ svaraði Eiður.

mbl.is

LEIKIR Í DAG - 19. APRÍL

Útsláttarkeppnin

LEIKIR Í DAG - 19. APRÍL

Útsláttarkeppnin