Pólverjar fyrstir í 8-liða úrslit

Robert Lewandowski er fyrirliði Póllands.
Robert Lewandowski er fyrirliði Póllands. AFP

Pólland er komið í 8-liða úrslit Evrópumótsins í knattspyrnu eftir að hafa lagt Sviss að velli eftir vítaspyrnukeppni í dag. Staðan var 1:1 eftir venjulegan leiktíma en Pólverjar nýttu allar spyrnur sínar.

Leikurinn byrjaði fjörlega. Arkadiusz Milik fékk dauðafæri eftir 30 sekúndna leik er Yann Sommer gerði sig sekan um slæm mistök í markinu. Hann fór út í boltann og reyndi að redda sér en boltinn barst á Milik sem var í dauðafæri en boltinn fór yfir fyrir opnu marki.

Pólverjar voru töluvert hættulegri aðilinn í leiknum og sóttu mikið. Spilamennska liðsins var frábær og það bar árangur á 39. mínútu er Jakub Blaszczykowski skoraði af stuttu færi eftir glæsilega sókn.

Sviss sótti án afláts síðustu tuttugu mínútur leiksins. Ricardo Rodriguez átti frábæra aukaspyrnu sem Lukasz Fabianski varði meistaralega áður en Xherdan Shaqiri jafnaði svo metin með stórglæsilegu marki á 82. mínútu.

Hann skoraði þá með hjólhestarspyrnu fyrir utan teig í stöng og inn. Gjörsamlega óverjandi fyrir Fabianski í markinu. Meira var ekki skorað eftir venjulegan leiktíma og fór leikurinn í framlengingu.

Ekkert mark var skorað í framlengingunni og þurfti því að grípa til annarra ráða og fara með leikinn í vítaspyrnukeppni. Pólverjar skoruðu úr öllum sínum spyrnum á meðan Granit Xhaka var skúrkur leiksins og klúðraði sinni spyrnu fyrir Sviss.

Pólverjar eru því komnir í 8-liða úrslit og mæta þar sigurvegaranum úr leik Portúgals og Króatíu.

Sviss 4:5 Pólland - KRYCHOWIAK AÐ KOMA PÓLVERJUM Í 8-LIÐA ÚRSLIT!!!

Sviss 4:4 Pólland - Rodriguez skorar af öryggi. Þetta er í höndum Pólverja núna.

Sviss 3:4 Pólland - Blaszczykowski skorar í hægra hornið. Sommer langt frá þessu.

Sviss 3:3 Pólland - Fabian Schär skorar af öryggi. Fabianski var farinn í hitt hornið.

Sviss 2:3 Pólland - Kamil Glik þrumar boltanum í hornið. Þægilegur!

Sviss 2:2 Pólland - Shaqiri skorar nokkuð örugglega.

Sviss 1:2 Pólland - MILIK SKORAR!! Sommer var í boltanum en það var ekki nóg.

Sviss 1:1 Pólland - GRANIT XHAKA SKÝTUR FRAMHJÁ!! Þetta var langt framhjá.

Sviss 1:1 Pólland - Robert Lewandowski skorar örugglega líka. 

Sviss 1:0 Pólland - Stephan Lichtsteiner skorar örugglega hægra megin.

Vítaspyrnukeppni.

120. Leik lokið. Þetta fer í vítaspyrnukeppni!!

112. DAUÐAFÆRI!! Sviss var þarna nálægt því að komast yfir. Derdiyok með skalla en Fabianski ver. Hvernig skoraði hann ekki?

106. Síðari hálfleikur er hafinn.

105. Fyrri hálfleik framlengingar er lokið. Lítið markvert sem gerðist. Bæði lið varkár, ætli þetta fari ekki í vítaspyrnukeppni?

91. Framlengingin er komin af stað.

Framlenging.

90. Venjulegum leiktíma er lokið. Það er framlengt!

82 - 1:1 - MAAAAAARK!!! XHERDAN SHAQIRI. Á HVAÐ ER ÉG AÐ HORFA?? Shaqiri tekur hjólhest fyrir utan teig í stöng og inn. Þetta hlýtur að vera mark mótsins. SVAKALEGT!

79 - DAUÐAFÆRI HJÁ SVISS!! Stórsókn Sviss endar með skoti úr teignum og í slá. Seferovic á skotið. Jafnar Sviss undir lokin?

74 - RICARDO RODRIGUEZ!!! Aukaspyrna rétt fyrir utan teig. Rodriguez smellhittir boltann en Fabianski ver meistaralega. Þetta var svakaleg varsla. Boltinn var á leið í samskeytin.

72 - Pólverjar að eiga ágætis skot hérna. Þetta er afar grófur leikur. Mikið af tæklingum og hart barist. Sviss þarf að leggja allt í þetta núna. Við fáum spennandi lokamínútur, lofa því.

53 - Blaszczykowski með þrumuskot með vinstri en Yann Sommer hefur sig allan í að verja frá honum. Þetta var við vítateigslínuna.

51 - SHAQIRI!! Svisslendingar að sækja. Shaqiri með fínt skot sem Fabianski ver. Við megum alveg búast við fleiri mörkum, það er ljóst.

46 - Síðari hálfleikur er hafinn.

Hálfleikur - staðan er 1:0. Svisslendingar reyndu af ákafa að jafna fyrir hálfleik en pólska vörnin stóð af sér storminn. Það verður líf og fjör í seinni hálfleik, því get ég lofað!

39 - 0:1 Maaaaaaark!! Pólland kemst í 1:0 með marki Jakub Blaszczykowski. Grosicki átti flottan sprett upp vinstri kantinn og lék boltanum þvert í gegnum teig Svisslendinga. þar barst hann á dauðafrían Blaszczykowski sem skoraði með góðu skoti í nærhornið.

33 - Nú eru það Pólverjar sem eru mun betri. Milik og Grosicki hafa báðir fengið ágæt færi en fyrsta markið er ekki enn komið í leikinn. Miðað við gang leiksin, verður það mjög fljótlega.

18 - Liðin eru sókndjörf og áræðin í upphafi leiks. Pólverjar byrjuðu betur en Svisslendingar eru byrjaðir að minna á sig. Þetta færi eftir 30 sek. var samt rosalegt!

10 - Gott skotfæri fyrir Blerim Džemaili en hann þrumar boltanum í hliðarnetið á marki Pólverja.

1 - Dauðafæri Pólverja eftir 30 sekúndur! Varnarmaður Sviss missir boltann og Arkadiusz Milik fær frábært færi en setur boltann yfir markið. Aldeilis hress byrjun!

0 - Það er uppselt á Stade Geof­froy-leikvanginum í Saint-Etienne. Flestir spekingar eru á því að Pólverjar klári þetta en Sviss hefur á mjög sterku liði að skipa.

0 - Bæði þessi lið fóru í gegnum riðlakeppnina ósigruð. Pólverjar gerðu m.a. jafntefli við heimsmeistara Þýskalands og Sviss gerði slíkt hið sama gegn gestgjöfum Frakklands. Þetta verður örugglega hörkuleikur tveggja góðra liða.

Byrjunarlið Sviss:

Sommer (M)
Lichtsteiner (F)
Seferović
Xhaka
Behrami
Rodríguez
Džemaili
Mehmedi
Djourou
Schär
Shaqiri

Byrjunarlið Póllands:

Fabiański (M)
Pazdan
Jędrzejczyk
Mączyński
Milik
Lewandowski (F)
Krychowiak
Grosicki
Glik
Błaszczykowski
Piszczek

mbl.is

LEIKIR Í DAG - 19. APRÍL

Útsláttarkeppnin

LEIKIR Í DAG - 19. APRÍL

Útsláttarkeppnin