Þið nefnduð ekki Ranieri

Eiður Smári Guðjohnsen og Emil Hallfreðsson í upphitun fyrir leik …
Eiður Smári Guðjohnsen og Emil Hallfreðsson í upphitun fyrir leik Íslands og Austurríkis. AFP

Enskir fréttamenn reyndu mikið á fréttamannafundi íslenska knattspyrnulandsliðsins í Annecy í morgun að fá Eið Smára Guðjohnsen til að tala um tvo fyrrverandi þjálfara sína, José Mourinho og Pep Guardiola, og væntanleg átök þeirra sem nýrra knattspyrnustjóra Manchester-liðanna frá og með þessu sumri.

Eiður lék undir stjórn Mourinho með Chelsea og Guardiola með Barcelona en vék sér fimlega undan þessu og kvaðst ekki vilja fara út í þessa sálma í bili. Hann lofaði þó að hann skyldi ræða þetta frekar að Evrópukeppninni lokinni.

Eiður komst þó ekki undan því að svara ýmsum spurningum varðandi sína þjálfara og hverjir hefðu haft mest áhrif á hann á ferlinum.

„Ég hef haft þá ánægju að vinna með frábærum þjálfurum og stjórum, og sem leikmaður fær maður alltaf eitthvað frá hverjum og einum. Skrýtið að þið skylduð ekki nefna Ranieri sem var að vinna ensku deildina. Margir þjálfarar hafa haft mikið að segja á mínum ferli, líka þeir sem ég var ekki sérlega hrifinn af. Það eru ekki bara þessir tveir sem þið nefnduð.“

Þá var hann spurður um hvar íslensku landsliðsþjálfararnir, Lars Lagerbäck og Heimir Hallgrímsson, stæðu í þessu samhengi.

„Lars er mjög ofarlega á lista fyrir það sem hann hefur gert, og hann og Heimir saman, fyrir íslenska knattspyrnu og fyrir landsliðið okkar. Það er að koma fram hér í dag og við erum að njóta þess sem þjóð. Ég hef ekki orku í að tala um alla þá þjálfara sem ég hef haft því þá væri ég kominn út í ævisöguna. En þeir tveir eru ofarlega á blaði hjá mér, miðað við áhrifin sem þeir hafa haft á íslenska knattspyrnu,“ svaraði Eiður.

Spurður af sænskum fréttamanni hvað Lars hefði fært landsliðinu svaraði Eiður:

„Fyrst og fremst skipulag, hvernig liðið kemur fram utan vallar og hvernig það spilar inni á vellinum. Ég held að það sé best að nota hans orð yfir þetta: Jafnvægi. Það er mikið jafnvægi í liðinu, í hópnum, hjá starfsliðinu, allt í kringum liðið virðist vera fullkomið. Það er allt í jafnvægi.

mbl.is

LEIKIR Í DAG - 24. APRÍL

Útsláttarkeppnin

LEIKIR Í DAG - 24. APRÍL

Útsláttarkeppnin