Fór ekki með Sigur Rósar-rútunni vegna EM

Frá tónleikum Sigur Rósar.
Frá tónleikum Sigur Rósar. mbl.is/hag

Georg Hólm, bassaleikari hljómsveitarinnar Sigur Rósar, lét hljómsveitarrútuna fara á undan sér til að hann gæti horft á leik Íslands og Austurríkis á EM í fótbolta en Sigur Rós hóf tónleikaferðalag í júní. 

Georg horfði á leikinn á knæpu í Covent Garden í London og tók lest til þess að ná hljómsveitarrútunni. Þeir meðlimir hljómsveitarinnar sem áhuga hafa á EM hafa þurft að hafa nokkuð fyrir því að sjá leiki Íslands í keppninni vegna ferðalaga.

Georg segir frá þessu í viðtali við enska blaðamanninn Ed Aarons og kveðst vera mikill knattspyrnuáhugamaður. Stíf dagskrá hjá hljómsveitinni hafi hins vegar ekki leyft það að hann færi til Frakklands til að sjá íslenska landsliðið spila. 

„Ég kemst því miður ekki. Ég vildi að ég gæti farið. Við fáum einungis frí í tvo daga og ég þarf að fara heim. Næstbest í stöðunni er að horfa á leikinn á risaskjá á Ingólfstorgi í landsliðstreyjunni. Ég tel að við eigum möguleika en í hreinskilni sagt verð ég samt stoltur að geta sagt að við höfum komist í 16-liða úrslit en fallið úr leik gegn Englandi. Er það býsna gott afrek fyrir 300 þúsund manna þjóð,“ sagði Georg meðal annars en hann hefur sótt heimaleiki Íslands í Laugardalnum.

„Ég elska fótbolta. Ég fór á flesta heimaleiki Íslands í undankeppninni og það var ótrúlegt. Erfitt hefur verið að átta sig á velgengninni því þeir hafa aldrei verið svona góðir. Við höfum átt frábæra leikmenn í gegnum tíðina en þeir hafa ekki spilað sem lið eins og þessir strákar gera. Það er eiginlega fallegt á að horfa. Loksins eigum við þetta magnaða lið frá Íslandi. Ég hef beðið lengi eftir þessu,“ sagði Georg en hann sagðist skilja hvaða tilfinningar voru að brjótast um í Guðmundi Benediktssyni sem lýsti leiknum eins og frægt er orðið víða um heim. 

„Ég var sjálfur öskrandi og æpandi á þessu augnabliki og geri ráð fyrir því að fólkið á pöbbnum hafi verið verulega hrætt við mig,“ sagði Georg Hólm, meðlimur Sigur Rósar, ennfremur í samtali við The Guardian.

Georg Hólm verður ef til vill á Ingólfstorgi á mórgun.
Georg Hólm verður ef til vill á Ingólfstorgi á mórgun. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is

LEIKIR Í DAG - 16. APRÍL

Útsláttarkeppnin

LEIKIR Í DAG - 16. APRÍL

Útsláttarkeppnin