Þola mig vonandi viku í viðbót

Lars Lagerbäck á Allianz Riviera leikvanginum í Nice þar sem …
Lars Lagerbäck á Allianz Riviera leikvanginum í Nice þar sem íslenska liðið er á æfingu þessa stundina. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Lars Lagerbäck, annar landsliðsþjálfara Íslands í knattspyrnu, vonast eftir því að landsliðsmennirnir þoli sig eina viku til viðbótar ef þeim tekst að sigra England í sextán liða úrslitum Evrópukeppninnar í Nice annað kvöld.

Lars sagði á fréttamannafundi á Allianz-leikvanginum í Nice í dag að vissulega gæti þetta orðið hans síðasti leikur við stjórnvölinn hjá íslenska liðinu en hann hættir sem kunnugt er eftir keppnina.

„Ég hef notið þess að þjálfa þetta lið og vil endilega vera með það í eina viku í viðbót, sem væri frábært. Ég held að strákarnir séu alveg til í að þola mig eina vikuna enn!“ sagði Lars.

Hann kvaðst vonast eftir því að íslenska liðið yrði ekki bara í varnarhlutverki í leiknum.

„Þótt erfitt sé að segja um það fyrir fram er viðbúið að enska liðið verði meira með boltann í leiknum. Við sjáum þó til hversu mikið við getum bætt okkur á því sviði en hvernig sem það verður þá erum við áfram á höttunum eftir sams konar úrslitum og við höfum þegar náð í keppninni.

Andrúmsloftið í hópnum er stórkostlegt

Er öðruvísi karakter í liði Íslands en öðrum landsliðum sem þú hefur stýrt, Svíþjóð og Nígeríu?

„Þetta er dálítið öðruvísi, sérstaklega vegna þess að strákarnir í liðinu hafa flestir þekkst vel frá unga aldri þar sem þeir jafnvel ólust upp saman eða spiluðu hver gegn öðrum. Andrúmsloftið í hópnum er alveg stórkostlegt og það er aldrei neinn pirringur í gangi. Þeirra hugarfar gengur út á að leggja hart að sér og sigra, og það segir kannski mest um þeirra karakter að þeir hafi þolað mig í fjögur og hálft ár!

Hafið þið æft vítaspyrnur í undirbúningi ykkar fyrir leikinn?

„Já, smávegis, sumar voru góðar, aðrar ekki eins góðar, eins og gengur og gerist.

Er þetta besti árangur sem þú hefur náð á ferlinum?

„Ég myndi ekki segja sá besti, ég hef náð lengra með lið Svíþjóðar, en þetta er dálítið öðruvísi, ekki síst vegna þess hvernig þetta lið hefur stöðugt bætt sig og fengið magnaðan stuðning frá þjóðinni.

Andlega hliðin er mjög sterk

Hvernig er hugarfar íslensku leikmannanna, eru þeir orðnir saddir eftir að hafa náð þessum óvænta árangri?

„Ég hef ekki sérstaklega miklar áhyggjur af því. Það eina sem gæti gerst væri að þeir ætluðu sér of mikið en andlega hliðin á liðinu er mjög sterk. Þeir hafa fengið tvo aukadaga til að endurhlaða sig, hlakka mikið til leiksins og á liðsfundunum höfum við aukið einbeitinguna á þetta verkefni. Það kæmi mér mjög á óvart ef þeir yrðu ekki algjörlega tilbúnir í leikinn.

Hjálpar það ykkur að flestir þekkja mjög vel til ensku leikmannanna?

Það skiptir ekki svo miklu máli. Vissulega er það eins í Svíþjóð og á Íslandi, allir leikmennirnir þekkja vel til Englendinganna og hvernig þeir spila, og það getur hjálpað til. Gylfi og Aron þekkja suma leikmennina persónulega. En um leið hefur spilamennska enska landsliðsins breyst talsvert og það byggir meira á flinkum leikmönnum en oft áður.

Spila vel en skora lítið

Býstu við að Roy Hodgson reyni að koma þér á óvart í leiknum annað kvöld?

Það er fátt sem kemur mér á óvart í fótboltanum lengur. Ensku leikmennirnir eru mjög hæfileikaríkir og geta haldið boltanum vel og ég held að Roy sé of klókur til þess að fara að reyna að breyta leik þeirra of mikið. Enska liðið hefur spilað nokkuð vel á mótinu, nema því hefur gengið illa að skora mörk. Leikirnir hafa verið jafnir og því hefur ekki tekist að knýja fram nógu góð úrslit. Liðið spilar sem sagt vel en skorar lítið og vonandi heldur það bara áfram! sagði Lars Lagerbäck á fréttamannafundinum í Nice.

mbl.is

LEIKIR Í DAG - 18. APRÍL

Útsláttarkeppnin

LEIKIR Í DAG - 18. APRÍL

Útsláttarkeppnin