Þjóðverjar áfram af öryggi

Þýskaland tryggði sér sæti í átta liða úrslitum Evrópumótsins í knattspyrnu eftir öruggan sigur á Slóvakíu, 3:0, í viðureign liðanna í sextán liða úrslitum í dag.

Jerome Boateng kom Þýskalandi yfir strax á áttundu mínútu þegar hann náði viðstöðulausu skoti að marki eftir hornspyrnu. Hans fyrsta landsliðsmark og hann valdi heldur betur augnablikið. Þjóðverjar réðu ferðinni eftir markið og aðeins fimm mínútum síðar fengu þeir gullið tækifæri til þess að bæta við marki.

Martin Skrtel togaði þá Mesut Özil niður innan teigs og vítaspyrna dæmd. Özil fór sjálfur á punktinn en Matus Kozacik í marki Slóvakíu varði víti hans örugglega. Þjóðverjar misstu eilítið dampinn eftir þetta, en stjórn þeirra á leiknum var þó ekki haggað.

Skömmu fyrir hálfleik kom svo annað markið. Eftir snarpa sókn komst Julian Draxler upp að endamörkum, lagði boltann inn í teig þar sem Mario Gomez var sem gammur á markteig og skilaði boltanum í netið. Staðan 2:0 í hálfleik.

Um miðbik síðari hálfleiks kom svo þriðja markið og þar var Draxler sjálfur á ferðinni. Hann lúrði þá á fjærstöng og tók boltann á lofti eftir að hann barst til hans eftir hornspyrnu. Staðan 3:0 og staðan vænleg fyrir Þjóðverja.

Úrslitin voru í raun ráðin eftir þetta, og sigurinn aldrei í hættu hjá Þjóðverjum. Þeir fengu færi til að bæta við en Matus Kozacik bjargaði því sem bjargað varð í marki Slóvaka. Lokatölur 3:0 fyrir Þýskalandi.

Þýskaland mætir annað hvort Ítalíu eða Spáni í átta liða úrslitum, en þær þjóðir eigast við á morgun.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

90. Leik lokið. Aldrei spurning hjá Þjóðverjum.

90. Toni Kroos í dauðafæri en Kozacik, sem hefur verið frábær í marki Slóvaka, varði frá honum á markteig. 

80. Bastian Schweinsteiger er kominn inná hjá Þýskalandi. Þetta er hans 36. leikur á stórmóti og er hann nú fjórði leikjahæsti í sögunni þegar liðið er til EM og HM.

75. Þjóðverjar ráða ferðinni og úrslitin eru löngu ráðin í raun. Slóvakar reyna en þýska stálið er þeim ofviða.

55. Mark! Staðan er 0:3 Eftir tíðindalítinn síðari hálfleik hingað til þá setja Þjóðverjar þriðja markið. Þar er á ferðinni Julian Draxler, sem lúrði á fjærstöng. Eftir hornspyrnu barst boltinn til hans og hann tók knöttinn á lofti og skilaði honum upp í þaknetið. 

46. Síðari hálfleikur hafinn.

45. Hálfleikur. Þjóðverjar hafa ráðið ferðinni, skorað tvö mörk og einnig klúðrað vítaspyrnu. Slóvakar hafa verk að vinna eftir hlé.

42. Mark! Staðan er 0:2. Og þeir þýsku bæta við eftir snarpa sókn. Mario Gomez rekur smiðshöggið úr markteig eftir að Draxler komst upp að endamörkum, sendi fyrir þar sem Gomez var eins og gammur í teignum. 

40. Færi! Manuel Neuer með eina sjónvarpsvörslu í marki Þjóðverja. Patrik Krosovsky með fínan skalla af markteig en Neuer blakar boltanum yfir með glæsibrag.

35. Julian Draxler hefur verið duglegur að koma sér í færi fyrir Þjóðverja, nú átti hann skot sem fór rétt framhjá. Þjóðverjar hafa tögl og hagldir en vantar eitthvað meira bit fram á við.

20. Þjóðverjar hafa ráðið ferðinni nokkuð en voru nokkuð slegnir eftir vítaklúðrið. En ef þeir hefðu rýnt í tölfræðina fyrir leik þá kemur í ljós að Özil hefur klúðrað þremur af síðustu fjórum vítaspyrnum sínum!

13. Varið víti! Á punktinn steig Özil sjálfur fyrir Þjóðverja en Matus Kozacik varði spyrnu hans auðveldlega!

12. Víti! Þýskaland fær víti! Martin Skrtel togaði Mesut Özil niður innan teigs.

8. Mark! Staðan er 0:1. Þeir þýsku eru ekki lengi að því! Kozacik varði meistaralega í marki Slóvaka og bjargaði í horn. Eftir hornspyrnuna barst boltinn út á Jerome Boateng sem lét bara vaða utarlega í teignum, smellhitti hann og Þjóðverjar eru komnir yfir. Sá valdi augnablikið til að skora sitt fyrsta landsliðsmark!

1. Leikurinn er hafinn.

0. Það er tæpur klukkutími í að flautað verði til leiks. Byrjunarliðin má finna hér fyrir neðan en Julian Draxler kemur inn í þýska liðið fyrir Mario Götze.

Slóvakía: Kozacik, Pekarik, Skrtel, Durica, Gyomber, Skriniar, Weiss, Krosovsky, Kucka, Hamsik, Duris

Þýskaland: Neuer; Hector, Hummels, Khedira, Ozil, Draxler, Müller, Boateng, Kroos, Kimmich, Gomez

mbl.is

LEIKIR Í DAG - 19. APRÍL

Útsláttarkeppnin

LEIKIR Í DAG - 19. APRÍL

Útsláttarkeppnin