Belgar áfram eftir mikla skemmtun

Belgar eru komnir áfram í átta liða úrslit Evrópumótsins í knattspyrnu eftir 4:0 sigur á Ungverjum í sextán liða úrslitunum í kvöld, í leik sem var frábær skemmtun.

Strax á tíundu mínútu brutu Belgar ísinn þegar Toby Alderweireld skallaði aukaspyrnu Kevin De Bruyne í netið. Það opnaði leikinn upp á gátt og úr varð afbragðs skemmtun þar sem mörg skemmtileg tilþrif litu dagsins ljós.

Gabor Király, hinn fertugi markvörður Ungverja, hélt sínum mönnum þó algjörlega á floti en í fyrri hálfleik einum varði hann alls sjö skot – mörg hver á glæsilegan hátt. Það er því honum að þakka að Ungverjar voru aðeins 1:0 undir í hálfleik og algjörlega inni í leiknum.

Ungverjar bitu vel frá sér eftir hlé og reyndu að jafna metin en Belgar refsuðu þeim fyrir rest. Á 77. mínútu skoraði Michy Batshuayi með sinni fyrstu snertingu eftir að hafa komið inná sem varamaður skömmu áður. Markið kom í kjölfar þess að Ungverjar klúðruðu fínu færi.

Og eftir markið virtist fylgja algjört hrun. Belgar skoruðu þriðja markið aðeins rúmum 90 sekúndum eftir annað markið, en þar var að verki Eden Hazard eftir skyndisókn sem hann batt endi á með hnitmiðuðu skoti í hornið. Staðan allt í einu 3:0 eftir galopinn leik fram að því.

Erfitt var fyrir Ungverja að koma til baka eftir þetta og Belgar ráku síðasta naglann í kistu þeirra í uppbótartíma þegar Yannick Carrasco skoraði eftir að hafa fengið stungusendingu innfyrir vörn Ungverja. Lokatölur 4:0, sem gefa þó ekki rétta mynd af leiknum miðað við hvernig hann spilaðist lengst af.

Belgar eru hins vegar komnir áfram og mæta Wales í átta liða úrslitum.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

90. Leik lokið. Belgar vinna stórsigur eftir jafnan, framan af allavega, og skemmtilegan leik

90.+1 Mark! Staðan er 0:4. Í uppbótartíma innsiglar varamaðurinn Yannick Carrasco sigurinn eftir aðra skyndisókn Belga. Hann fær stungusendingu innfyrir og skorar framhjá Király.

79. Mark! Staðan er 0:3. Ungverjar að brotna! Þeir tapa boltanum við vítateig Belga sem bruna fram. Eden Hazard fær boltann, snýr af sér varnarmann og skilar boltanum neðst í fjærhornið með hnitmiðuðu skoti. Tvö mörk á þremur mínútum hjá Belgum!

77. Mark! Staðan er 0:2. Það eru Ungverjar sem hafa verið hættulegri síðustu mínútur en Belgarnir refsa. Eftir hornspyrnu berst boltinn út til Hazard, hann sendir fyrir þar sem Michy Batshuayi er einn á auðum sjó og skorar með sinni fyrstu snertingu, nýkominn inná.

66. Ungverjinn Adam Pinter fer illa með Axel Witsel utan teigs, lætur svo vaða og Courtois þarf að taka á honum stóra sínum til að bjarga. Boltinn fór af varnarmanni og virtist stefna í netið áður en sá Belgíski kom fingrum á boltann.

60. Enn líf og fjör en lítið um færi. Ungverjar eru að reyna að finna glufur hjá Belgunum, sem standa þó þéttir.

46. Király er heldur betur í stuði í kvöld. Eden Hazard snöggur að koma sér í færi í síðari hálfleik og nær föstu skoti að marki, en sá gamli á milli stanganna með viðbrögð kattarins og blakar boltanum yfir!

46. Síðari hálfleikur er hafinn.

45. Hálfleikur. Belgar eru yfir í hálfleik eftir mikla skemmtun hér fyrir hlé. Vonandi verður framhald á þessu fjöri.

42. Þvílík varsla! Stórsókn hjá Belgum og Király ver úr sannkölluðu dauðafæri frá Eden Hazard sem var aleinn í teignum!

41. Ungverjar að minna á sig! Nú fyrirliðinn Balazs Dzsudzsak með snöggt skot sem fer naumlega framhjá marki Belga!

39. Það er líf og fjör í þessum leik. Nú átti Gergo Lobrencsics hörskuskot sem fór rétt yfir mark Belga. Og þá meina ég rétt yfir!

34. Vá! Kevin De Bruyne með skot beint úr aukaspyrnu, hinn fertugi Gabor Király nær að stökkva og blaka boltanum í slána! Magnað skot og mögnuð varsla.

25. Illa farið með góðan séns hjá Belgum. Dries Mertens með boltann og Belgar þrír á þrjá, hann komst upp að endamörkum með tvo að bíða í teignum en sendingin léleg og auðvelt fyrir Gabor Király að handsama boltann.

15. Þetta var slysalegt! Thibaut Courtois í marki Belga fékk sendingu til baka, hann rann hins vegar og boltinn fór framhjá honum! Sem betur fer fyrir Belga var sendingin ekki beint á markið, svo boltinn rúllaði framhjá og Ungverjar fengu hornspyrnu.

10. Mark! Staðan er 0:1. Belgar komast yfir. Kevin De Bruyne tekur aukaspyrnu og Toby Alderweireld er mættur til að skalla boltann í netið!

7. Leikurinn byrjar fjörlega. Fyrst skot frá Ungverjum sem fór fram hjá og strax í næstu sókn var Romelu Lukaku aðþrengdur í teignum að reyna að koma sér í færi.

0. Byrjunarliðin eru klár og þau má sjá hér að neðan.

Ungverjaland: Király; Lang, Juhász, Guzmics, Kádár; Gera; Lovrencsics, Kleinheisler, Nagy, Dzsudzsák; Szalai.

Belgía: Courtois; Meunier, Alderweireld, Vermaelen, Vertonghen; Witsel, Nainggolan; De Bruyne, Mertens, Hazard; R. Lukaku.

mbl.is

LEIKIR Í DAG - 28. MARS

Útsláttarkeppnin

LEIKIR Í DAG - 28. MARS

Útsláttarkeppnin