„Viljum spila á móti þeim bestu“

Fyrirliðarnir Wayne Rooney og Aron Einar Gunnarsson.
Fyrirliðarnir Wayne Rooney og Aron Einar Gunnarsson. AFP

„Við erum búnir að horfa á enska liðið á Evrópumótinu. Liðið hefur spilað vel og við vitum að okkar bíður erfiður leikur,“ sagði Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði íslenska landsliðsins í knattspyrnu, á fréttamannafundi í Nice í dag.

Íslendingar mæta Englendingum í 16-liða úrslitunum í Nice annað kvöld og vitaskuld ríkir mikil spenna og eftirvænting í íslenska hópnum.

„Ég er líkamlega klár. Leikurinn við Austurríki tók á en það var gott að ná sigrinum og tryggja okkur tvo aukafrídaga. Maður vill spila á móti bestu þjóðum í heimi og á morgun er kjörið tækifæri til að gera það,“ sagði Aron Einar.

„Þetta er mikilvægur leikur fyrir liðið og landið. Ég og strákarnir þekkjum þessa leikmenn sem spila í enska landsliðinu og það verður ótrúlega spennandi að fá að mæta Englendingum og við ætlum að njóta þess að spila leikinn,“ sagði Gylfi Þór á fréttamannafundinum í Nice í dag.

„Líkamlegt ástand okkar er gott og það kom sér vel að fá tvo aukadaga í frí. Þetta verður frábær leikur, algjör draumaleikur. Það er kominn mikill spenningur og við verðum klárir. Englendingarnir eru ekki búnir að spila sinn besta fótbolta ennþá og það sýnir hvað þeir eru góðir. Þetta verður erfiður leikur en vonandi tekst okkur að halda þeim í skefjum,“ sagði Gylfi Þór, sem mætir á morgun þremur fyrri félögum sínum í Tottenham.

„Við erum allir fínir félagar og höldum sambandi. Það verður gaman að kljást við þá. Mér finnst að UEFA þurfi hins vegar að gera breytingu hvað varðar að fá miða í 16-liða úrslitin. Við vildum að sjálfsögðu fleiri miða fyrir Íslendinga en þeir sem mæta verða vonandi með góða stemningu,“ sagði Gylfi Þór.

mbl.is

LEIKIR Í DAG - 23. APRÍL

Útsláttarkeppnin

LEIKIR Í DAG - 23. APRÍL

Útsláttarkeppnin