Eigum skilið að fara heim ef við vinnum ekki Ísland

Enskir eru sigurvissir.
Enskir eru sigurvissir. AFP

Danny Murphy, knattspyrnusérfræðingur hjá BBC, er sannfærður um að England muni vinna öruggan sigur gegn Íslandi í kvöld þegar liðin mætast í 16 liða úrslitum Evrópumótsins í knattspyrnu.

„Ísland er með vel skipulagt lið en þá skortir gæði og ef England vinnur ekki Ísland, á enska liðið ekkert annað skilið en að fara heim,“ skrifar Murphy í pistli sem birtist á heimasíðu BBC.

„Við [England] þurfum að hafa góða gætur á löngum innköstum Arons Einars Gunnarssonar og öðrum föstum leikatriðum. Ísland hefur hávaxna og sterka leikmenn og þeir eru góðir í föstum leikatriðum sínum.“

„Þeir [Ísland] munu pakka í vörn en ef við leikum eins og við höfum gert á EM hingað til vinnum við leikinn og förum í átta liða úrslitin.“

„England má alls ekki lenda í þeirri stöðu að vera að sækja á markið fullir örvæntingar og fá þá skyndisókn í bakið. Það er styrkleiki Íslands og þeir hafa framkvæmt skyndisóknir sínar vel í Frakklandi. Ekkert lið er með betri skotnýtingu en Ísland á öllu mótinu.“

„Varnarmenn Englands þurfa að halda einbeitingu og sýna þolinmæði. Við munum hafa yfirburði með boltann og þurfum að opna íslensku vörnina. Það mun takast, ég er handviss um það,“ sagði Murphy sem gerði m.a. garðinn frægan með Liverpool.

Harry Kane byrjar líklega í kvöld.
Harry Kane byrjar líklega í kvöld. AFP

Murphy er nokkuð viss um að Harry Kane verði í byrjunarliðinu en hann er ekki sammála Roy Hodgson í því vali.

„Hann vill örugglega nota Kane, því að Íslendingar munu ekki skilja eftir nein göt fyrir aftan vörnina, sem Jamie Vardy væri góður að nýta sér. Hodgson er líklega þeirrar skoðunar að Kane sé örlítið betri í að fá boltann í fæturna með bakið að markinu.

Ég hefði persónulega haft Vardy í liðinu, þar sem hann virkar ferskari. Kane getur þó auðveldlega látið mig éta stóru orðin en hann er leikmaður sem spilar stundum nokkra slaka leiki en setur svo sannkallað draumamark.

„Hvor þeirra sem byrjar leikinn, á það alltaf að nægja gegn Íslandi,“ sagði afar sigurviss Murphy að lokum.

mbl.is

LEIKIR Í DAG - 24. APRÍL

Útsláttarkeppnin

LEIKIR Í DAG - 24. APRÍL

Útsláttarkeppnin