Ólafur Ragnar: „Ekkert annað kom til greina“

Ólafur Ragnar Grímsson, fráfarandi forseti Íslands, segir að ekkert annað hafi komið til greina en að snúa aftur út til Frakklands eftir að íslenska karlalandsliðið komst í sextán liða úrslit á EM í Frakklandi.

Ólafur Ragnar kom til borgarinnar í dag ásamt Dorrit Moussaieff. mbl.is náði tali af Ólafi Ragnari fyrr í dag.

Hann sagði að þegar komið hefði í ljós að Ísland kæmist áfram „kom auðvitað ekkert annað til greina en að heiðra þetta frábæra lið og íslenskar íþróttir með því að gera sér för hingað,“ sagði Ólafur.

„Það hafa verið mikil forréttindi í minni forsetatíð að fá að fylgjast með hinum glæsilega árangri íslensks íþróttafólks í svo mörgum greinum og á svo mörgum mótum, bæði á Íslandi og erlendis. Stærsta stundin á þeim ferli var að sjálfsögðu þegar Ísland keppti til úrslita á Ólympíuleikunum í Kína og hlaut silfur, fyrst smárra þjóða í sögu Ólympíuleikanna til að hljóta verðlaun í hópíþrótt. Á vissan hátt finnst mér dagurinn í dag, hvernig svo sem úrslitin verða, vera svipaður kafli í sigursögu íslenskra íþrótta og stundin í Beijing á sínum tíma,“ sagði Ólafur Ragnar spurður út í árangur íslenska liðsins.

Ólafur segir að þessi stund í Nice sé sigurhátíð í áratuga langri sögu íþróttahreyfingarinnar á Íslandi. Þá sé þessi viðburður heimssögulegur. 

Hann segir að góður árangur Íslands í Frakklandi skipti máli fyrir ungu kynslóðina á Íslandi „sem skynjar í þessu augnabliki, sem hún mun aldrei gleyma, eins og ég hef aldrei gleymt sigrum Clausen-bræðra og Gunnars Huseby, að þetta verður þeirra veganesti á næstu áratugum,“ segir Ólafur. Það sé hægt að vera með rætur á Íslandi og standa sig á heimsvísu.

Þá greindi Ólafur frá því að hann hefði þakkað Lars Lagerbäck, sem er annar af tveimur þjálfurum íslenska landsliðsins, fyrir að gefa yngstu kynslóðinni á Íslandi dýrmætt veganesti til næstu áratuga. „Það er einstök gjöf, vegna þess að lítil þjóð gleymir aldrei þessum augnablikum.“

mbl.is

LEIKIR Í DAG - 19. APRÍL

Útsláttarkeppnin

LEIKIR Í DAG - 19. APRÍL

Útsláttarkeppnin