Englendingar vilja ekki vítaspyrnukeppni

Ensku landsliðsmennirnir kynntu sér aðstæður í Nice í gær með …
Ensku landsliðsmennirnir kynntu sér aðstæður í Nice í gær með því að ganga um grasið en æfðu ekki. Fremstir Harry Kane og Dele Alli, leikmenn Tottenham, á milli þeirra Chris Smalling, varnarmaður Manchester United. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Englendingar óttast það mjög ef lið þeirra fer í vítaspyrnukeppni en frá slíkum hefur enska landsliðið ekki riðið feitum hesti í úrslitakeppni HM og EM. Í þau sjö skipti sem Englendingar hafa farið í vítaspyrnukeppni á stórmótum hefur þeim aðeins einu sinni tekist að vinna.

England og Ísland eigast við í 16 liða úrslitunum á Evrópumótinu í Nice í kvöld og ef íslenska liðinu tekst ekki að gera út um leikinn í venjulegum leiktíma eða framlengingu ætti möguleikinn að vera góður að slá Englendingana út í vítakeppni í ljósi sögunnar.

Eina skiptið sem Englendingar hafa haft betur í vítakeppnum á stórmótum var þegar þeir höfðu betur á móti Spánverjum í 8 liða úrslitunum á Evrópumótinu árið 1996 sem haldin var á Englandi. Gleði enskra var skammvinn því fjórum dögum síðar töpuðu Englendingar fyrir Þjóðverjum í vítaspyrnukeppni í undanúrslitunum á Wembley. Leikmenn eins og Stuart Pearce, Chris Waddle, Gareth Southgate og David Batty vita hvernig er að bregðast bogalistin af vítapunktinum.

Wayne Rooney, fyrirliði Englendinga, segir að á Evrópumótinu hafi leikmenn liðsins æft vítaspyrnur eftir hverja æfingu í Frakklandi.

,,Við förum í gegnum það sem gæti gerst í leiknum. Vitaskuld er það öðruvísi að taka vítaspyrnur á æfingu heldur fyrir framan áhorfendur og með mikla pressu á bakinu,“ segir Rooney.

Hófst árið 1990

Hörmungar Englendinga af vítapunktinum hófust á HM árið 1990 þegar Stuart Pearce lét verja frá sér og Chris Waddle þrumaði boltanum yfir markið í undanúrslitaleik gegn Þjóðverjum.

Englendingar töpuðu í vítakeppni á móti Argentínu í 16 liða úrslitunum á HM 1998, gegn Portúgölum á EM 2004 og á HM 2006 og á móti Ítölum í átta liða úrslitunum á EM 2012. Þar skoraði Wayne Rooney úr vítaspyrnu framhjá Gianluigi Buffon, markverði Ítala.

,,Það góða við hópinn okkar núna er það að engum úr honum hefur brugðist bogalistin í vítaspyrnukeppni fyrir England svo það hangir ekki yfir nokkrum leikmanni,“ segir Rooney, sem á markametið í enska landsliðinu en hann hefur skorað 52 mörk.

Þessi grein er úr íþróttablaði Morgunblaðsins í dag þar sem ítarlega er fjallað um leikinn í kvöld og EM í Frakklandi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

LEIKIR Í DAG - 24. APRÍL

Útsláttarkeppnin

LEIKIR Í DAG - 24. APRÍL

Útsláttarkeppnin