Fann að þeir litu niður á okkur

Ragnar Sigurðsson í leiknum í kvöld.
Ragnar Sigurðsson í leiknum í kvöld. AFP

„Við trúðum á þetta allan tímann og þeir héldu að þetta yrði ekkert mál. Maður fann að þeir litu svolítið niður á okkur,“ sagði Ragnar Sigurðsson, sem valinn var maður leiksins eftir að Ísland tryggði sér sæti í átta liða úrslitum Evrópumótsins í knattspyrnu eftir frækinn 2:1 sigur á Englandi.

„Mér fannst þeir ekki vera að skapa neitt. Eina færið sem ég man eftir er þegar [Harry] Kane skallaði beint á markið. Annars voru þetta fyrirgjafir eða langskot sem fóru framhjá. Ég var eiginlega ekkert stressaður í síðari hálfleik nema síðustu mínútuna þegar maður var orðinn svolítið þreyttur,“ sagði Ragnar á blaðamannafundi eftir leikinn.

„Mig hefur dreymt um það lengi að spila á móti Englandi og er feginn að við gerðum það í dag en ekki fyrir nokkrum árum þegar við gátum ekki neitt,“ sagði Ragnar, hreinskilinn að vanda. Ísland mætir gestgjöfunum, Frakklandi, í átta liða úrslitum. Við hverju býst Ragnar þar?

„Ég býst við góðu liði, svipuðu og því enska kannski. Frakkar hafa ekki spilað sinn besta leik ennþá en það höfum við ekki heldur. Þetta gæti því orðið svipaður leikur, en við viljum þó spila agaðri leik og vera meira með boltann.“

Aðspurður hvað hann haldi að hafi gerst hjá Englandi sagði Ragnar:

„Þeir byrjuðu mjög vel og skoruðu snemma, en voru hissa þegar við jöfnuðum og sérstaklega þegar við komumst yfir. Þeir „panikkuðu“ því aðeins. Þeir eru gott lið og reyndu mikið, en eins og við vitum þá er ekki auðvelt að skora mörk gegn Íslandi,“ sagði Ragnar Sigurðsson.

Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði landsliðsins, fagnar með áhorfendum í Nice …
Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði landsliðsins, fagnar með áhorfendum í Nice eftir leikinn. AFP
Aron Einar Gunnarsson fyrirliði fagnar innilega í leikslok.
Aron Einar Gunnarsson fyrirliði fagnar innilega í leikslok. AFP
Heimir Hallgrímsson faðmar liðsmenn íslenska liðsins í leikslok.
Heimir Hallgrímsson faðmar liðsmenn íslenska liðsins í leikslok. AFP
Fögnuður í leikslok.
Fögnuður í leikslok. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

LEIKIR Í DAG - 29. MARS

Útsláttarkeppnin

LEIKIR Í DAG - 29. MARS

Útsláttarkeppnin