Keppum kannski við Manchester United

Óvíst er að Hannes Þór Halldórsson leiki fleiri leiki með …
Óvíst er að Hannes Þór Halldórsson leiki fleiri leiki með Bodø/Glimt í Noregi. AFP

„Verðið á Hannesi Þór Halldórssyni hefur rokið upp úr öllu valdi og hugsanlega lendum við í samkeppni við Manchester United,“ segir Aasmund Bjørkan, þjálfari Bodø/Glimt, í samtali við TV2 í Noregi um markvörð liðsins, Hannes Þór, landsliðsmarkvörð Íslands, sem farið hefur á kostum á EM í fótbolta eins og leikmenn íslenska landsliðsins í heild.

„Við erum fyrst og fremst himinsæl og afar stolt af frammistöðu Hannesar á EM,“ segir Bjørkan sem verður að stóla á varamarkvörð liðs síns á sunnudaginn þegar  Bodø/Glimt mætir Rosenborg í norsku úrvalsdeildinni í fótbolta.

„Þegar ég kvaddi Hannes reiknaði ég með honum á æfingu með liðinu eftir að riðlakeppni EM lyki en sú varð alls ekki raunin,“ segir Bjørkan sem veit alls ekki hvort Hannes Þór leiki nokkuð aftur með Bodø/Glimt þar sem leigusamningur félagsins við NEC Nijmegen, þar sem Hannes er samningsbundinn, rennur út í næsta mánuði.

Spurður hvort hann reikni með að halda Hannesi þegar leigusamningnum lýkur sagði Bjørkan það vera algjörlega óvíst enda sé ljóst að verðið á Hannesi hafi hækkað og um leið renni án efa fleiri félög hýru auga til hans. 

mbl.is

LEIKIR Í DAG - 19. APRÍL

Útsláttarkeppnin

LEIKIR Í DAG - 19. APRÍL

Útsláttarkeppnin