Ekki verra að vera minnimáttar

Lars Lagerbäck á fundinum í Annecy í morgun.
Lars Lagerbäck á fundinum í Annecy í morgun. AFP

Að vanda var Lars Lagerbäck, annar landsliðsþjálfara Íslands í knattspyrnu, spurður út í hina og þessa hluti á fréttamannafundi í Annecy í morgun, ekki síst af erlendum fréttamönnum sem voru fjölmennir á fundinum.

Sænskur fréttamaður spurði Lars hvort hann hefði tekið eftir allri þeirri athygli og jákvæðu umfjöllun sem nú væri um hann í sænskum fjölmiðlum og hvernig það væri.

„Já, ég hef hef séð á netinu hvernig umfjöllunin er og auðvitað er alltaf skemmtilegra að vera í jákvæðu umhverfi. Mjög jákvætt. En það sem skiptir samt mestu máli er það sem gerist hérna í Frakklandi og að halda leikmönnum okkar á jörðinni.“

Tilviljun að enginn sé með tvö gul

Hann var spurður um stöðuna á gulu spjöldunum hjá íslenska liðinu, en þótt liðið hafi fengið níu spjöld hafa þau dreifst á leikmennina og enginn er í banni gegn Frökkum.

„Já, þessi dreifing var skipulögð! Nei, nei, þetta eru alltof mörg gul spjöld að mínu mati og sum þeirra hafa ekki verið sanngjörn. En þetta er skiljanlegt. Ég er ekki vanur að tala um heppni í fótbolta en vissulega má líta á þetta sem smáheppni. Það er tilviljun að enginn skuli vera með tvö gul spjöld núna,“ sagði Lars.

Vitum hvað við fengum út úr leiknum

Þá var hann spurður um umfjöllun fjölmiðla eftir sigurinn á Englandi og hvort það væri sanngjarnt að umræðan snerist aðallega um hve illa England hefði spilað en ekki hve vel Ísland hefði spilað.

„Hjá Englendingunum, þá er þetta dálítið dæmigert hvað fjölmiðlana þar varðar þótt ég hafi mjög lítið fylgst með hvað þeir skrifa. Það er endalaust hægt að velta vöngum yfir því hver skýringin er þegar annað liðið stendur sig vel en hitt ekki. Sjálfir höfum við verið mjög skipulagðir í okkar leik og það hefur reynst öðrum liðum erfitt að brjóta okkur á bak aftur. Ég tel ekki að enska liðið hafi spilað illa á mótinu. Okkar leikmenn eiga fullt af hrósi skilið en annars er mér eiginlega alveg sama. Við vitum hvað við fengum út úr leiknum og það er það eina sem skiptir máli.“

Er ekki að taka við enska landsliðinu

Einhver umræða hefur farið af stað um að Englendingar ættu að ráða Lars sem þjálfara í staðinn fyrir Roy Hodgson, sem var rekinn eftir leikinn á mánudaginn, og Egil „Drillo“ Olsen, fyrrverandi landsliðsþjálfari Noregs, er einn þeirra sem það hefur verið haft eftir.

„Nei, ég held að ég sé ekki að fara að taka við enska landsliðinu. Nú er líkast til kominn tími fyrir mig að hægja á mér þótt ég vonist til að tengjast fótboltanum eitthvað áfram. Ég held að ég fari ekki í nýtt þjálfarastarf. Þetta var fallega sagt hjá Drillo en fjarlægt raunveruleikanum og ég tel að ég sé alls ekki inni í myndinni,“ sagði Lars.

Um þá stöðu Íslands að hafa verið talinn fyrirfram veikari aðilinn gegn Englandi og aftur nú gegn Frakklandi svaraði hann: „Enginn reiknaði með þessu og kannski er erfiðast þegar væntingarnar eru miklar. Mér finnst ekkert verra að vera í stöðu þess sem er talinn minnimáttar, það á bara að koma til góða. Frakkar gera miklar væntingar til síns liðs, eins og Englendingar, og ef þeir vinna okkur ekki verður það ekki talið nógu gott.“

mbl.is

LEIKIR Í DAG - 16. APRÍL

Útsláttarkeppnin

LEIKIR Í DAG - 16. APRÍL

Útsláttarkeppnin