Landsliðsmenn skammaðir í Annecy

Lars Lagerbäck á fréttamannafundi.
Lars Lagerbäck á fréttamannafundi. AFP

Lars Lagerbäck og Heimir Hallgrímsson landsliðsþjálfarar í knattspyrnu gerðu íslensku landsliðsmönnunum grein fyrir að það þýddi ekki að slaka á eftir sigurinn á Englandi og skömmuðu nokkra þeirra fyrir að koma of seint í kvöldmat á liðshótelinu í Annecy í gærkvöld.

Lars var spurður á fréttamannafundi sem var að ljúka í Annecy um hvernig andlegur undirbúningur liðsins fyrir leikinn gegn Frökkum yrði.

„Hann verður svipaður og áður og við erum sem fyrr með ákveðnar reglur sem allir fylgja. Stundum þarf maður að nota þær á dálítið ýktan hátt til að sýna hver standardinn á að vera. Eitt af þessum smátriðum kom upp í gær þegar nokkrir leikmannanna komu of seint í kvöldmat. Þetta er ekkert stórmál en samt eitt af atriðunum sem eiga að vera í lagi. Við sögðum við þá að þeir skyldu ekki halda að þeir væru búnir að ljúka sínu verkefni með því að vinna Englendinga. Þetta væri ekki 100 prósent fagmennska sem við vildum halda. Aðalmálið er að menn séu ekki að slaka á og við séum áfram 100 prósent einbeittir í öllum atriðum," sagði Lars.

Í kjölfarið var rifjað upp atvikið frá undankeppni EM 2008 þegar Lars rak Zlatan Ibrahimovic og tvo aðra leikmenn heim fyrir leik eftir að þeir stálust út af liðshótelinu. Hann var spurður hvort þetta hefði verið svipað atvik.

„Það var að sjálfsögðu alvarlegra atvik sem gerðist í Svíþjóð og sú ákvörðun var mjög erfið. En þá þurfti að sýna hver réði ferðinni og því voru leikmennirnir sendir heim. Sem betur fer er þetta í eina skiptið sem ég hef þurft að taka svona ákvörðun og vonandi gerist það ekki aftur. Einmitt þess vegna erum við með fastar vinnureglur í kringum liðið. Í þessu tilviki er það vanvirðing við félagana að koma 20 mínútum of seint í mat," sagði Lars.

mbl.is

LEIKIR Í DAG - 29. MARS

Útsláttarkeppnin

LEIKIR Í DAG - 29. MARS

Útsláttarkeppnin