„Lineker hefur ekki hundsvit á þessu“

Gary Lineker er ekki í uppáhaldi hjá Mino Raiola.
Gary Lineker er ekki í uppáhaldi hjá Mino Raiola. AFP

Gary Lineker, fyrrverandi leikmaður enska landsliðsins og núverandi sjónvarpsmaður á BBC, fær heldur betur að heyra það fyrir ummæli sem hann lét falla um franska miðjumanninn Paul Pogba á dögunum.

Lineker gagnrýndi frammistöðu Pogba á Evrópumótinu sem fer fram í Frakklandi um þessar mundir en Pogba er kominn ásamt landsliði sínu í 8-liða úrslitin þar sem liðið mætir Íslandi á sunnudag.

Pogba hefur átt betri daga en á þessu Evrópumóti en hann átti þó fínan leik gegn Írum í 16-liða úrslitum. Hann fékk að vísu á sig víti í byrjun leiks en reyndist svo vera einn besti leikmaður liðsins þegar upp var staðið.

Lineker spurði á samskiptavef Twitter á meðan leikurinn var í gangi hvort Pogba væri ofmetnasti leikmaður heims en Mino Raiola, umboðsmaður Pogba, svarar honum í blöðunum í dag.

„Þegar einhver fær borgað fyrir að tjá sig um eitthvað þá þýðir það ekki að sá aðili viti hvað hann er að tala um. Lineker er einn af þeim,“ sagði Raiola.

„Miðað við þá hæfileika sem Pogba hefur og miðað við verðið sem ég sé á leikmönnum í Evrópu myndi ég halda að hann væri vanmetinn. Það er leikmaður á bekknum hjá Belgíu sem er seldur fyrir 40 milljónir evra til Chelsea.

Þegar Gary Lineker talar um Pogba hefur hann ekki hundsvit á því sem hann er að tala um. Ég meina ég man eftir því þegar hann sagði fyrir tímabilið að ef Claudio Ranieri ynni ensku úrvalsdeildina með Leicester myndi hann mæta á nærbuxunum í eigin þátt. Það segir allt sem segja þarf,“ sagði hann að lokum.

mbl.is

LEIKIR Í DAG - 29. MARS

Útsláttarkeppnin

LEIKIR Í DAG - 29. MARS

Útsláttarkeppnin