Minnir aðeins á Svíana 1994

Lars Lagerbäck var brosmildur á fréttamannafundinum í Annecy í morgun.
Lars Lagerbäck var brosmildur á fréttamannafundinum í Annecy í morgun. AFP

Lars Lagerbäck, annar landsliðsþjálfara Íslands í knattspyrnu, var á blaðamannafundi í Annecy í morgun beðinn um að bera árangur íslenska landsliðsins á EM í Frakklandi, og áhugann í heimalandinu, saman við óvænta frammistöðu Svía á heimsmeistaramótinu í Bandaríkjunum árið 1994 þegar þeir komu skemmtilega á óvart og hrepptu bronsverðlaunin.

Lars var á þeim tíma þjálfari sænska 21-árs landsliðsins og aðstoðaði landsliðsþjálfarana Tommy Svensson og Tord Grip í keppninni vestanhafs.

Spurður hvort tilfinningin nú væri svipuð og 1994 svaraði Lars: „Já, kannski aðeins. Ég var reyndar ekki svo mikið með liðinu sjálfu í þeirri keppni, heldur var ég á öðrum leikjum. Á þessum tíma áttuðum við okkur alls ekki á því hversu stórt þetta var heima í Svíþjóð. Netið var ekki komið og ég held að það hafi bara tveir í hópnum verið komnir með farsíma. En þegar við komum heim eftir mótið var þetta líkast til svipuð stemning og er á Íslandi núna og ánægja fólksins svipuð.“

Hann var spurður hvort hann hefði lært mikið af keppninni 1994. „Maður öðlast reynslu af öllu sem maður gerir og eflaust hef ég lært eitthvað í þessari keppni, enda þótt ég átti mig kannski ekki á því sjálfur. Kannski helst hvernig best væri að eiga við meiðsli leikmanna og hversu lengi maður eigi að bíða eftir því að sjá hvort meiddur leikmaður geti spilað. Þátttaka Svíþjóðar á HM 1994 var afar vel skipulögð, og sama er að segja þegar við héldum Evrópukeppnina árið 1992. Reynsla frá slíku nýtist alltaf á einhvern hátt,“ sagði Lars Lagerbäck.

mbl.is

LEIKIR Í DAG - 20. APRÍL

Útsláttarkeppnin

LEIKIR Í DAG - 20. APRÍL

Útsláttarkeppnin