Allt gjörbreytt hjá landsliðinu

Íslenska landsliðið á æfingu í Annecy í dag.
Íslenska landsliðið á æfingu í Annecy í dag. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Arnar Þór Viðarsson, aðstoðarþjálfari belgíska knattspyrnuliðsins Lokeren og fyrrverandi landsliðsmaður Íslands, segir að allt í kringum íslenska landsliðið sé gjörbreytt frá þeim tíma sem hann spilaði með því.

Dagblaðið Gazet van Antwerpen fjallar ítarlega um íslenska ævintýrið á EM í dag og ræðir m.a. bæði við Arnar og Kristján Bernburg, sem hefur búið í Belgíu í 38 ár og fylgst grannt með íslenskum fótbolta.

„Þegar ég kom til móts við landsliðshópinn á árum áður var það meira eins og að vera í skemmtiferð. Aðstæður til æfinga voru erfiðar, lélegir skór, búningar og vellir, og stundum þjálfarar sem höfðu ekki reynslu af atvinnumennsku. Menn fengu sama og ekkert fyrir að mæta í leikina.

Þetta hefur breyst mikið á síðari árum. Lars Lagerbäck sá til þess að öll umgjörðin yrði stórbætt, læknateymið var eflt, sjúkraþjálfurum bætt við, dvalið á betri hótelum og aginn allur miklu meiri. Þá hefur hann sett upp leikaðferð sem mjög erfitt er að spila á móti," segir Arnar við blaðið.

Hann segir jafnframt að íslenska úrvalsdeildin sé svipuð og næstefsta deildin í Belgíu. Margir efnilegir leikmenn komist snemma í aðallið íslensku félaganna. „En þegar þeir eru orðnir bestir þar, þróast þeir ekki lengur sem leikmenn. Þessvegna fara nær allir bestu knattspyrnumenn Íslands til erlendra félaga. Þau vita þetta og reyna að fá þá til sín strax þegar þeir eru sextán til sautján ára gamlir," segir Arnar ennfremur en hann lék 52 landsleiki frá 1998 til 2007 og spilaði stærstan hluta ferilsins með Lokeren og Cercle Brugge í Belgíu.

mbl.is

LEIKIR Í DAG - 29. MARS

Útsláttarkeppnin

LEIKIR Í DAG - 29. MARS

Útsláttarkeppnin