Alvöru kall sem skammar okkur aðeins

Ragnar Sigurðsson ræðir við fréttamenn í Annecy í dag og …
Ragnar Sigurðsson ræðir við fréttamenn í Annecy í dag og í baksýn má sjá Birki Bjarnason. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Ragnar Sigurðsson, sem af mörgum hefur verið talinn besti leikmaður Íslands í Evrópukeppninni í knattspyrnu í Frakklandi, kveðst fyrst og fremst hugsa um að standa sig vel í næsta leik en hann hefur verið orðaður við mörg sterk félög.

„Þetta er búinn að vera mjög viðburðaríkur tími og það hefur mikið verið í gangi eftir leikinn. Mikið af fólki sem vill tala við okkur og spyrja okkur spurninga, og er með alls konar pælingar,“ sagði Ragnar fyrir æfingu íslenska liðsins sem er nýhafin í Annecy.

Ragnar hefur verið mikið í sviðsljósinu fyrir frammistöðu sína á EM, sérstaklega eftir leikinn við Englendinga, og hefur verið orðaður við fjölmörg sterk lið síðustu daga. Spurður hvort hann hefði velt því mikið fyrir sér sagði hann að það hefði hann að sjálfsögðu gert.

Ég talaði aðeins við umboðsmanninn minn í gær. Hann sagði að ekkert væri fast í hendi ennþá, hvatti mig til að halda áfram og standa mig í næsta leik, og eftir hann yrði tékkað betur á stöðunni. Að sjálfsögðu er ég áhugasamur um að spila í sterkari deild,“ sagði Ragnar en spurður um möguleikann á að hann færi til Liverpool svaraði hann:

„Það hefur verið minn draumur síðan ég var lítill strákur en ég held að það sé ekkert til í þeim sögum.“

Hvernig er að einbeita sér að verkefninu hérna með allt þetta áreiti?

„Það er bara gott. Þetta umtal er bara extra hvatning fyrir mig að standa mig vel og það er gaman að fá svona viðurkenningu fyrir það sem maður er að gera. Það lætur mann bara langa til að leggja enn harðar að sér.“

Hefurðu átt þína bestu leiki á ferlinum hérna í Frakklandi?

„Getur maður ekki sagt það? Þetta er stórt svið hérna og maður reynir að meta hvað manni finnst um eigin frammistöðu. Já, ætli það ekki.“

Samvinnan við Kára Árnason í vörninni, er hún ekki afar mikilvæg?

„Jú, hún er eins og alltaf, síðustu fjögur fimm árin, og verður bara betri og betri. Það yrði reyndar algjör snilld ef við fengjum samning saman en það gerist víst yfirleitt ekki svoleiðis.“

Hvernig leggst Frakkaleikurinn í þig?

„Bara mjög vel. Ég hugsa að þetta verði mjög svipað og á móti Englendingum. Við verðum taldir vera litla liðið og þurfum að sanna mikið. Það held ég að sé bara mjög svipað og við upplifðum í síðasta leik.“

Er erfitt að einbeita sér núna eftir sigurinn á Englandi.

„Nei, alls ekki. Við erum búnir að vera á sigurbraut í meira og minna fjögur til fimm ár og við vitum hvað þarf.“

Kom þér á óvart að Lars skyldi ræða á fréttamannafundi að hann hefði þurft að skamma ykkur fyrir að koma of seint í kvöldmat?

„Ég sá það ekki einu sinni. Við fórum í golf í gær og ég var ekki með símann eða neitt. Nei, nei, ef menn eru að verða sloppy eða skíta upp á bak þá verður aðeins að skamma okkur. Það hefur komið nokkrum sinnum upp að menn hafa gleymt hinu og þessu og þá þarf að vera alvöru kall eins og hann sem skammar okkur aðeins. Það þarf að hafa ákveðnar reglur, eða guidelines, eins og þeir vilja kalla þetta hérna. Menn geta ekki farið hver í sína áttina þótt við séum búnir að vinna nokkra leiki. Það er bara fínt að halda okkur á tánum.“

Hvernig er að halda ró sinni í þessu umhverfi?

„Auðvitað erum við í skýjunum með þann árangur sem við höfum náð en við reynum að vera rólegir, gerum okkar besta til að halda okkur á jörðinni, og höfum gert það.“

Ragnar Sigurðsson fagnar jöfnunarmarkinu gegn Englandi ásamt Kára Árnasyni, Birki …
Ragnar Sigurðsson fagnar jöfnunarmarkinu gegn Englandi ásamt Kára Árnasyni, Birki Má Sævarssyni og Ögmundi Kristinssyni. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
mbl.is

LEIKIR Í DAG - 25. APRÍL

Útsláttarkeppnin

LEIKIR Í DAG - 25. APRÍL

Útsláttarkeppnin