Fá nú réttmæta virðingu

Íslenskir knattspyrnumenn hafa hlotið aukna virðingu vegna góðrar frammistöðu á …
Íslenskir knattspyrnumenn hafa hlotið aukna virðingu vegna góðrar frammistöðu á EM Í Frakklandi. Einnig hafa þeir hækkað í verði. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Við erum að fara að horfa á fleiri íslenska leikmenn fá þá virðingu sem þeir eiga skilið, og tækifæri til að sanna sig á hærra stigi. Hvort að þeir muni höndla það að spila í betri liðum með meiri samkeppni verður tíminn að leiða í ljós.“ Þetta segir einn sérfræðinga sem Morgunblaðið leitaði til, til að varpa ljósi á þau áhrif sem árangur Íslands á EM í Frakklandi mun hafa á verðgildi íslensku landsliðsmannanna og möguleika þeirra hvað ferilinn með félagsliðum varðar.

Munu margir landsliðsmannanna fá tækifæri hjá sterkara félagsliði, og í sterkari deild, en þeir gera nú? Og hvaða áhrif hefur árangurinn á kaup og kjör landsliðsmannanna? Stutta svarið er það að nú munu mun fleiri lið, frá fleiri löndum, hafa áhuga á íslenskum fótboltamönnum. Landsliðsmennirnir munu flestir eiga möguleika á betri samningi en þeir hafa núna, og bjóðast að komast á hærra stig en þeir eru á nú. Snjóboltinn hefur verið að rúlla, og hann hefur bætt miklu á sig síðustu tvær vikur.

Langflestir af 23 leikmönnum íslenska landsliðsins á EM kusu að bíða með sín samningsmál fram yfir EM. Arnór Ingvi Traustason er ein undantekning, en hann varð dýrasti leikmaður í sögu austurríska félagsins Rapid Vín þegar hann var seldur þangað frá Svíþjóðarmeisturum Norrköping, rétt eftir að hafa verið valinn í lokahóp Íslands fyrir EM. Ljóst er að árangurinn sem landsliðið hafði þá þegar náð hjálpaði Arnóri Ingva. Rúnar Már Sigurjónsson væri sömuleiðis ekki í sigti Grasshopper, og Bröndby að sækjast eftir Hirti Hermannssyni, nema vegna þess að þeir tilheyra landsliðshópi sem hefur náð svo eftirtektarverðum árangri, að mati umboðsmanns sem Morgunblaðið ræddi við. Og hvað með þá sem mynda byrjunarliðið á EM?

„Ragnar Sigurðsson á möguleika á að spila í ensku úrvalsdeildinni. Hans frammistaða, ekki bara á þessu móti heldur líka með Krasnodar á háu stigi í Rússlandi, gerir þann möguleika mjög raunverulegan,“ segir reyndur umboðsmaður, en Ragnar var í gær orðaður við Tottenham, Leicester og Liverpool í The Guardian. Umboðsmaður segist telja að Kári Árnason geti sömuleiðis komist aftur frá Svíþjóð í sterkari deild, þrátt fyrir aldur, en saman hafa þeir Ragnar myndað algjörlega magnað miðvarðapar í íslenska landsliðinu. Hannes Þór Halldórsson markvörður hefur einnig átt frábært mót og haft í nógu að snúast, en hann er í dag leikmaður NEC Nijmegen í Hollandi. Samt sem áður er ólíklegt að hann sé á leið í ensku úrvalsdeildina eða álíka sterka deild. Ari Freyr Skúlason er undir smásjá Groningen í Hollandi og gæti, 29 ára gamall, verið á leið í meistaraflokkslið utan Skandinavíu í fyrsta sinn.

Nánar er velt vöngum út af þessu í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

LEIKIR Í DAG - 25. APRÍL

Útsláttarkeppnin

LEIKIR Í DAG - 25. APRÍL

Útsláttarkeppnin