„Frídagarnir mikilvægir“

Birkir Bjarnason svarar spurningum fréttamanna í Annecy í morgun.
Birkir Bjarnason svarar spurningum fréttamanna í Annecy í morgun. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Þessir síðustu dagar eftir leikinn á móti Englandi hafa verið fínir. Við höfum tekið því rólega og einbeitt okkur að því að jafna okkur eftir átökin,“ sagði landsliðsmaðurinn Birkir Bjarnason við mbl.is í morgun fyrir æfingu landsliðsins í Annecy.

„Það er nauðsynlegt að við verðum orðnir ferskir þegar að leiknum við Frakkana kemur. Frakkarnir eru með gríðarlega góða einstaklinga í sínu liði og við verðum að vera með allt á hreinu ef við ætlum okkur að fá eitthvað út úr þeim leik. Við byrjun i kvöld að leikgreina franska liðið og verðum klárir,“ sagði Birkir en Íslendingar mæta Frökkum á Stade de France, þjóðarleikvangi Frakka, í átta liða úrslitunum á EM á sunnudagskvöldið.

„Það er erfitt að segja til um það hvort þessi leikur verði svipaður og leikurinn við Englendingana. Við erum ekki búnir að fara að neinu ráði yfir franska liðið.“

Fannst ykkur ekki leikurinn við England vera ykkar besti leikur í keppninni?

„Jú, ég held að hann sé besti leikur okkar í langan tíma. Við spiluðum gríðarlega vel í 93 mínútur og við sýndum að við getum haldið bolta og spilað góða fótbolta á móti góðu liði.“

Hvernig tekst ykkur að takast á við alla þessa athygli sem ykkur er sýnd?

„Við erum flestir vanir mikilli athygli og ég held að það sé ekkert vandamál þótt fjölgað hafi í hópi fjölmiðlamanna síðustu dagana. Frídagarnir sem við fáum eru mjög mikilvægir. Við gerum allt til að ná endurheimt sem best.“

Birkir Bjarnason
Birkir Bjarnason mbl.is/Skapti Hallgrímsson
mbl.is

LEIKIR Í DAG - 24. APRÍL

Útsláttarkeppnin

LEIKIR Í DAG - 24. APRÍL

Útsláttarkeppnin