„Það er best að halda þessu leyndu“

Kári svarar spurningum fréttamanna í Annecy í morgun.
Kári svarar spurningum fréttamanna í Annecy í morgun. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Það hefur gengið ágætlega hjá okkur að koma okkur niður á jörðina eftir Englandsleikinn,“ sagði Kári Árnason, miðvörður íslenska landsliðsins í knattspyrnu, við mbl.is í Annecy í Frakklandi í morgun.

„Við höfum bara tekið einn dag í einu og erum að hlaða batteríin fyrir leikinn á móti Frökkunum og komum endurnærðir í hann. Ég notaði frídaginn sem við fengum í gær til að fara í golf og eftir það var maður í rólegheitum,“ sagði Kári, sem hefur leikið afar vel í hjarta íslensku varnarinnar auk þess sem hann hefur lagt upp tvö af mörkum íslenska liðsins á EM.

Lítið þið á leikinn við Frakkana sem ykkar erfiðustu prófraun til þessa á mótinu?

„Hver leikur er prófraun fyrir okkur. Frakkarnir eru með frábæra leikmenn innanborðs. Þeir hafa kannski ekki spilað sinn besta leik á mótinu og fólk býst við meira af þeim. Auðvitað hafa Frakkarnir heimavöllinn og stuðninginn og við gerum okkur alveg grein fyrir að þetta verður gríðarlega erfiður leikur.

Við viljum vera hérna lengur og við munum reyna að gera eins vel og við getum til að það verði að veruleika. Við förum í þennan leik til þess að vinna en ekki til að vera bara með. Ég held að við munum ekkert breyta okkar leikstíl á einni nóttu. Við erum alltaf líklegir til að skora og höfum skorað í öllum leikjunum en það er væri fínt að geta haldið hreinu svona einu sinni en auðvitað er það erfitt á móti svona frábærum liðum,“ sagði Kári.

Áhuginn á Ragnari kemur ekki á óvart

Kollegi þinn í vörninni, Ragnar Sigurðsson, er mikið í kastljósinu og hálf Evrópa er á höttunum eftir honum. Kemur þessi áhugi þér nokkuð á óvart?

„Þetta kemur mér ekkert á óvart. Hann hefur sýnt það með landsliðinu og félagsliði sínu að hann er frábær leikmaður og getur spilað í hvaða deild sem er. Það yrði ekki verra að fara með honum,“ sagði Kári og brosti.

Nú ert þú sjálfur búinn að eiga mjög gott mót. Hefur þú fengið einhverjar fyrirspurnir?

„Ég held að það sé best að segja sem minnst. Ég ræði þetta bara við minn umboðsmann afsíðis. Það er best að halda þessu leyndu.“

Kári Árnason.
Kári Árnason. AFP
mbl.is

LEIKIR Í DAG - 25. APRÍL

Útsláttarkeppnin

LEIKIR Í DAG - 25. APRÍL

Útsláttarkeppnin