Barcelona keypti nýliða Frakkanna

Samuel Umtiti á æfingu með franska landsliðinu.
Samuel Umtiti á æfingu með franska landsliðinu. AFP

Franski miðvörðurinn Samuel Umtiti, sem væntanlega spilar sinn fyrsta landsleik þegar Frakkar taka á móti Íslendingum í 16-liða úrslitum EM í knattspyrnu á Stade de France á sunnudagskvöldið, er orðinn leikmaður Spánarmeistara Barcelona.

Þetta staðfesti forseti Barcelona í gær en félagið kaupir hann af Lyon fyrir 25 milljónir evra. Vonast er til þess að hann leysi vandamálin í miðri vörn Barcelona en félagið hefur ekki verið sérlega lánsamt í kaupum á miðvörðum undanfarin ár og leitað lengi að arftaka Carles Puyol.

Josep Maria Bartomeu forseti Barcelona sagði að eftir væri að ganga frá samningnum við Umtiti sjálfan en það yrði gert strax að lokinni Evrópukeppninni þar sem hann væri upptekinn með franska landsliðinu.

Umtiti er 22 ára gamall en hefur þegar spilað um 150 leiki fyrir Lyon. Hann er fæddur í Kamerún en flutti kornungur til Frakklands og hefur verið í röðum Lyon frá átta ára aldri. Umtiti hefur spilað með öllum yngri landsliðum Frakka og var valinn í EM-hópinn rétt fyrir keppnina þegar Jérémy Mathieu, einn af væntanlegum keppinautum hans um stöðu í liði Barcelona, heltist úr lestinni vegna meiðsla.

Þar sem Adil Rami tekur út leikbann á sunnudaginn er fastlega gert ráð fyrir að Umtiti verði í vörn Frakklands gegn Íslandi.

mbl.is

LEIKIR Í DAG - 25. APRÍL

Útsláttarkeppnin

LEIKIR Í DAG - 25. APRÍL

Útsláttarkeppnin