Mér að mæta ef einhver meiðir annan

Lars Lagerbäck á fundinum í morgun.
Lars Lagerbäck á fundinum í morgun. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Lars Lagerbäck, annar landsliðsþjálfara Íslands, segir að leikurinn gegn Frökkum á sunnudagskvöldið í átta liða úrslitum Evrópukeppninnar í knattspyrnu sé ein af hans stærstu stundum á þjálfaraferlinum.

„Það er mjög erfitt að meta svona hluti þegar maður er sjálfur í miðri hringiðunni. Þú ert í einskonar loftbólu og hver einasti leikur er sá mikilvægasti. En að sjálfsögðu er þetta einn af mínum stærstu leikjum á ferlinum vegna þess að við eigum nú möguleika á að stíga skrefi lengra og ég hlakka mikið til. Vonandi getum við komið franska liðinu í vandræði," sagði Lars á fréttamannafundi íslenska landsliðsins í Annecy fyrir stundu.

Skiptir ekki máli þó tveir séu í banni

Frakkar verða með tvo menn í leikbanni, miðvörðinn Adil Rami og miðjumanninn N'Golo Kante, og Lars var spurður hvort það myndi veikja lið þeirra.

„Ég held að það skipti ekki miklu máli þó tveir leikmanna Frakklands séu í banni. Þeir eru með svo breiðan og hæfileikaríkan hóp. Það er ekki auðvelt að finna veikleika í þessu franska liði, og erfitt að tala um að eitthvað slíkt sé til staðar. En hvert lið er með einhver svið þar sem það er ekki eins sterkt og á öðrum, og það snýst oft um leikstílinn og hugarfarið. Það sem skiptir mestu máli fyrir okkur er hvað við gerum þegar við náum boltanum, og hvernig Frakkar séu þá staðsettir. Við höfum tekið ákveðin skref í þessu móti hvað það varðar að halda boltanum og gera eitthvað við hann, og við þurfum að taka næsta skref til að eiga möguleika gegn Frökkum," sagði Lars.

Höfum fundið okkar leið

Spurður um hvernig gangi að búa íslenska liðið undir þennan stóra leik svaraði Lars:

„Við höfum verið heppnir með hve gott hlé hefur verið á milli leikjanna og þar með fengið tíma til að endurhlaða batterín. Ég dáist að Portúgölum hvernig þeir hafa komist í gegnum þetta með styttra á milli leikja og tvær framlengingar. Frakkar eru líkamlega sterkir og fljótir en við erum ágætir á þeim sviðum líka. Það sem skiptir mestu máli er að koma andlega sterkir til leiks. Það er ekki eins auðvelt og líkamlega hliðin en við höfum fundið okkar leið til að nálgast leikina á þessu sviði og ná upp rétta hugarfarinu. Við fundum í kvöld til að fara betur yfir þessa hluti.

Hann var spurður hvort markmiðin hefðu breyst og hvort hann væri farinn að sjá fyrir sér að Ísland leiki til úrslita í keppninni.

„Markmið okkar eru þau sömu og þegar ég byrjaði að vinna með þetta lið í ársbyrjun 2012. Við förum alltaf eftir sömu reglum og munum fara yfir einhverjar þeirra í kvöld. Aðalmarkmið okkar er að vinna leikina, en það er um leið lykilatriði að við gerum alltaf alla huti 100 prósent og einbeitum okkur að því bæði á æfingum og liðsfundum. Við einbeitum okkur alltaf bara að næsta leik, það er ekki hægt að gera þetta á nokkurn annan hátt, svaraði Lars.

Aron æfir í dag

Hann var spurður um ástandið á Aroni Einari Gunnarssyni fyrirliða sem æfði ekkert með liðinu í gær.

Aron æfir í dag og þátttaka hans í leiknum verður ekkert vandamál. Hann var í sérstakri meðferð í gær að mati sjúkraliðsins okkar en ég geri ekki ráð fyrir öðru en að hann verði í lagi og fari ekki að meiða sig á æfingu. Ef einhver meiðir annan leikmann á æfingu, þá er mér að mæta!" svaraði Lars Lagerbäck.

mbl.is

LEIKIR Í DAG - 28. MARS

Útsláttarkeppnin

LEIKIR Í DAG - 28. MARS

Útsláttarkeppnin