Sögulegur sigur Wales á Belgíu

Eden Hazard og Gareth Bale eigast við í kvöld.
Eden Hazard og Gareth Bale eigast við í kvöld. AFP

Wales er komið áfram í undanúrslit Evrópumótsins í knattspyrnu eftir 3:1 sigur á Belgíu í kvöld en leikurinn fór fram á Stade Pierre Mauroy-leikvanginum í Lille. Wales mætir Portúgal í undanúrslitum mótsins.

Belgíska liðið leit afar vel út fyrstu tuttugu mínútur leiksins. Liðið fékk dauðafæri í byrjun leiks er Romelu Lukaku fann Yannick-Ferreira Carrasco í teignum en Wayne Hennessey varði skot hans. Belgar náðu frákastinu en vörnin bjargaði á línu áður en Hennessey varði síðan skot sem kom utan úr teignum.

Radja Nainggolan kom Belgum loks yfir á 13. mínútu leiksins en hann skoraði með þrumufleyg af 25 metra færi. Belgíska liðið var þarna komið á bragðið en í stað þess að halda sömu taktík þá datt liðið aftur og þá fór velska liðið að sækja.

Það bar árangur á 26. mínútu er Ashley Williams, fyrirliði liðsins, skoraði með skalla eftir hornspyrnu. Leikurinn eftir það var í raun eign velska liðsins og í raun ótrúlegt að liðið hafi ekki verið yfir í hálfleik.

Belgar fóru síðari hálfleikinn vel af stað og áttu nokkur fín færi en nýtingin var þó arfaslök og það kom í bakið á þeim. Hal Robson-Kanu kom velska liðinu yfir á 55. mínútu eftir sendingu frá Aaron Ramsey.

Lærisveinar Marc Wilmots þurftu því að herja á velska liðið en það gekk ill að finna úrslitasendinguna. Sam Vokes gerði svo út um leikinn á 86. mínútu er hann skoraði með skalla eftir sendingu frá hægri vængnum.

Lokatölur 3:1 fyrir Wales sem fer í undanúrslitin og mætir Portúgal. Wales er að spila á sínu fyrsta stórmóti líkt og Ísland en óhætt er að segja að árangur liðsins sé ótrúlegur.

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.

Leik lokið. Wales er komið í undanúrslit eftir 3:1 sigur á Belgíu. Wales mætir Portúgal í undanúrslitum.

86. MAAAAAARK!!! Belgía 1:3 Wales. SAM VOKES AÐ LOKA ÞESSU!! Gunter kom með fyrirgjöf frá hægri beint á kollinn á Vokes sem stýrir knettinum í netið. Wales er á leið í undanúrslit.

79. WITSEL!! Skot yfir markið. Það var þó brotið á Lukaku fyrr í sókninni en ekkert dæmt.

77. WITSEL NÁLÆGT ÞVÍ!! Fellaini stangaði boltann fyrir markið en Witsel var of seinn í boltann.

74. FELLAINI Í DAUÐAFÆRI!! Fyrirgjöf kom fyrir markið og Fellaini stekkur upp en skallinn fer framhjá. Hvernig klúðraði hann þessu? Hann var alveg upp við markið.

65. Belgar fengu aukaspyrnu fyrir utan teig en Hennessey varði það örugglega. Hvað gera Belgarnir? Wales er að skrá sig í sögubækurnar ef liðið fer í undanúrslit og það á sínu fyrsta móti.

55. MAAAAAAARK!!! Belgía 1:2 Wales. ROBSON-KANU AÐ KOMA WALES YFIR!!! BILAÐUR SNÚNINGUR HJÁ HONUM!! Bale kom með langan bolta á Ramsey sem fann Robson-Kanu. Hann tók snúning á vörnina og skoraði. Þvílíkt mark.

50. HAZARD MEÐ ÞRUMUSKOT!! Belgía eru allt í öllu núna. Skot rétt framhjá markinu úr teignum.

49. DE BRUYNE MEÐ SKOT!! Belgar eru heldur betur að sækja núna. Skot fyrir utan teig en boltinn rétt yfir.

48. LUKAKU MEÐ SKALLA!! Frábær sending inn í teig og Lukaku skallar hann en boltinn fór framhjá markinu.

46. Síðari hálfleikurinn er kominn af stað.

Hálfleikur.

42. Wales er að stjórna leiknum í augnablikinu. Liðið að skapa sér mikið en engin dauðafæri þó.

34. BALE!!! Keyrði upp í sókn og þvílíkur hraði á manninum. Skotið hjá honum var hins vegar slappt og hélt Courtois því.

30. MAAAAAAAARK!!! Belgía 1:1 Wales. ASHLEY WILLIAMS AÐ JAFNA!! Fyrirliðinn sjálfur með skalla eftir hornspyrnu. Hvar voru varnarmennirnir? Ef það á að dekka einhvern í hornum þá er það Williams.

26. TAYLOR Í ALGERU DAUÐAFÆRI!! Wales sótti hægra megin í teignum. Boltinn kom fyrir markið þar sem Taylor var einn og óvaldaður en Thibaut Courtois ver frá honum. Hvernig skoraði Taylor ekki þarna?

13. MAAAAAAAAAARK!!! Belgía 1:0 Wales. RADJA NAINGGOLAN MEÐ ÞRUMUFLEYG!! Hann fékk boltann fyrir utan teiginn vinstra megin og þrumar honum upp í samskeytin. Þvílíkt mark hjá Nainggolan.

10. BALE!!! Hann keyrði upp vinstri vænginn áður en hann lét vaða á markið en boltinn í hliðarnetið.

7. DAUÐAFÆRI HJÁ BELGUM!! Lukaku fékk boltann vinstra megin í teignum og kom með fyrirgjöf á Carrasco en Hennessey ver skotið frá honum. Belgar fengu boltann aftur inn í teig en vörnin bjargaði á línu áður en það kom þriðja skotið sem fór af Hennessey og yfir markið. Vá!

3. Belgar keyra pressuna í gang fyrstu mínúturnar hérna. Þeir ætla sér að skora snemma, það er morgunljóst.

1. Leikurinn er hafinn.

0. Þjóðsöngvarnir eru spilaðir. Styttist í leik. Ég ætla að spá sigri Belga í dag, held að ævintýrið hjá Wales klárist í kvöld.

0. Byrjunarliðin birtast hér fyrir neðan.

Belgía: Courtois, Meunier, Alderweireld, Denayer, J. Lukaku, Witsel, Nainggolan, De Bruyne, Carrasco, Hazard, R. Lukaku.

Wales: Hennessey; Gunter, Chester, A Williams, Davies, Taylor; Allen, Ledley; Ramsey, Bale; Robson-Kanu

mbl.is

LEIKIR Í DAG - 29. MARS

Útsláttarkeppnin

LEIKIR Í DAG - 29. MARS

Útsláttarkeppnin