Heldur Michele starfinu hjá Buffon?

Sigurjón Aðalsteinsson og Heimir Hallgrímsson glaðir í bragði.
Sigurjón Aðalsteinsson og Heimir Hallgrímsson glaðir í bragði. Ljósmynd/Sigurjón Aðalsteinsson

Michele er einn af grjóthörðum stuðningsmönnum íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu á Ítalíu. Michele er yfirkokkur á feikilega flottum veitingastað sem er í eigu vinar hans Gianluigis Buffons, landsliðsmarkvarðar Ítalíu.

Michele kom til Íslands fyrir rúmu ári og tók þátt í Ítölskum dögum sem haldnir voru úti í Eyjum, en hápunkturinn var átta rétta galakvöldverður á Einsa kalda, þar sem „demantar“ ítalskrar matargerðar voru óspart notaðir; ferskar trufflur.

Eftir að Michele sneri aftur til Ítalíu varð greinilega ekki aftur snúið, því Ísland og við víkingarnir sem þraukum á þessum stað á mörkum hins byggilega heims erum í guðatölu og örugglega ekki á förum af þeim stalli, ef ég þekki hann rétt.

Í dag er Michele eins og þreytandi krakki sem nær alltaf að toppa viðmælendur sína. Dæmi: „Michele, svakalega er safnið um marmarann hérna í Carrara flott.“ Svar: „Uss þetta er ekki neitt, veistu að Elliði bæjarstjóri í Eyjum byggði sjálfur, með aðstoð nágranna sinna, flottasta gosminjasafn heims og þetta gerði hann á fjórum mánuðum.“

Í Íslandsferðinni voru fleiri forfallnir Íslandsaðdáendur, eins og Alberto, sem upp á sitt eindæmi hefur haldið Íslandskynningar, með áherslu á Vestmannaeyjar, en í þessari vinnu sinni svífst hann einskis, eins og þegar hann fékk „lánað“ ráðhús Massa til að svala þessari Íslandsáráttu sinni.

Síðan var það Marco Savini, sem sýndi mér getraunaseðil sem hann fyllti út fyrir stuttu. Hann lagði 10 evrur á sigur Íslands gegn Englendingum. Uppskeran var 1.600 evrur, sem er alveg þolanleg niðurstaða, en afraksturinn ætlar hann að nota til að bjóða vinum sínum á Íslandi á undanúrslitaleikinn.

Allir Ítalirnir eignuðust góða vini í Eyjum, sem dæmi má nefna Kidda Gogga, Elliða Vignisson, bæjarstjóra Vestmannaeyja, Magga Mozzarella, Daða Páls, Himma Nínon, Einsa kalda að sjálfsögðu, Grím kokk, Sigga Gísla og fleiri.

Síðastliðið vor fór undirritaður og heimsótti Michele með gjöf frá íslenskum vinum, en þetta var landsliðstreyjan merkt honum. Sem aðdáandi íslenska landsliðsins númer 1 tók Michele ákvörðun sem á kannski eftir að koma í bakið á honum; hann tilkynnti Buffon að stuðningur við íslenska landsliðið væri ósvikinn og hann færi ekki í ítölsku treyjuna fyrr en Ísland væri dottið út, jafnvel þótt Ísland myndi mæta Ítalíu.

Þetta er Buffon ósáttur við, en Michele verður ekki haggað, jafnvel þó svo hann þurfi að taka pokann sinn (Einsi kaldi lofar að taka hann til sín, ef sú staða kemur upp).

Tvo forfallna aðdáendur íslenska landsliðsins í viðbót er vert að nefna. Raffaello tók ástfóstri við Ísland 2008, en frá því þá hefur hann fylgst mjög náið með íslenska landsliðinu og ÍBV. Heimir Hallgrímsson er mjög hátt metinn hjá honum og hann veit ýmislegt um úrslit leikja og hvernig þeir þróuðust, reyndar veit hann miklu meira en Heimir sjálfur, en það hef ég fengið staðfest hjá Heimi.

Að lokum er það Paolo, eiginmaður Höllu Margrétar Árnadóttur óperusöngkonu. Að horfa með honum á landsleik þar sem Ísland er að spila er bara hættulegt, maðurinn fer hamförum, hann er svona Gummi Ben á sterum.

Sigurjón Aðalsteinsson og Heimir Hallgrímsson á góðri stundu.
Sigurjón Aðalsteinsson og Heimir Hallgrímsson á góðri stundu. Ljósmynd/Sigurjón Aðalsteinsson
Michele og Sigurjón Aðalsteinsson léttir í lundu.
Michele og Sigurjón Aðalsteinsson léttir í lundu. Ljósmynd/Sigurjón Aðalsteinsson
Michele og Gianluigi Buffon.
Michele og Gianluigi Buffon. Ljósmynd/Sigurjón Aðalsteinsson
mbl.is

LEIKIR Í DAG - 29. MARS

Útsláttarkeppnin

LEIKIR Í DAG - 29. MARS

Útsláttarkeppnin