Eitthvað allt annað í gangi núna

Hallbera Guðný Gísladóttir og Fanndís Friðriksdóttir reittu af sér brandara …
Hallbera Guðný Gísladóttir og Fanndís Friðriksdóttir reittu af sér brandara á fréttamannafundinum í dag. Ljósmynd/KSÍ

Þó að Fanndís Friðriksdóttir sé nú mætt í þriðja sinn á ferlinum í lokakeppni Evrópumóts í knattspyrnu segir hún að á vissan hátt líði sér sem nýliða í aðdraganda EM í Hollandi.

Fanndís segir að umfjöllun um íslenska liðið og umgjörðin sé öll umtalsvert meiri en í Svíþjóð fyrir fjórum árum eða í Finnlandi árið 2009 þar sem hún lék á sínu fyrsta stórmóti.

„Þetta er allt öðruvísi,“ sagði Fanndís á fréttamannafundi í dag. „Við upplifum til dæmis þessa kveðjustund í Leifsstöð sem var ótrúleg og nokkuð sem við höfum ekki fengið áður. Þar stöndum við í sömu sporum og þær sem eru nýjar, en þetta er ótrúlega skemmtilegt,“ sagði Fanndís.

Hallbera Guðný Gísladóttir, sem var einnig með á EM 2013, tók undir með Fanndísi á fréttamannafundinum í Ermelo í dag: „Ég held að allir sem hafa verið að fylgjast með sjái að það er eitthvað allt annað í gangi núna. Það var ótrúlega gaman og mikil upplifun að fara á EM í Svíþjóð, en núna finnur maður að þetta er töluvert stærra og áhuginn og umfjöllunin miklu meiri og betri. Ég held að við séum flestar að upplifa nýja hluti,“ sagði Hallbera.

„Það er auðvitað sérstök tilfinning að spila leik á stórmóti, hvort sem það eru 50 Íslendingar í stúkunni eða 3.000. Þetta verður samt auðvitað öðruvísi fyrir okkur [eldri leikmennina] líka, en við erum komnar með nokkra leiki á bakið og náum vonandi að stýra spennustiginu,“ sagði Hallbera. Hún taldi þó ekki að pressan væri meiri á liðinu núna að ná góðum árangri:

„Nei, maður finnur ekki fyrir pressu, en maður finnur að áhuginn er meiri. Ég held að það sé að hluta til vegna fótboltaæðisins sem gekk yfir landið í fyrra. Það vilja allir að okkur gangi vel. Ég myndi ekki segja að við förum í mótið með þá pressu að ná í gull, annars séum við til skammar. Við nýtum bara þennan kraft sem þetta gefur okkur,“ sagði Hallbera.

Ingibjörg Sigurðardóttir, Agla María Albertsdóttir og Sigríður Lára Garðarsdóttir voru ekki í landsliðinu í undankeppninni en unnu sér inn sæti í EM-hópnum með frammistöðu sinni síðustu mánuði, og jafnvel á lokametrunum fyrir mótið. Fanndís var spurð hvort hún sæi mun á nýliðunum nú og sjálfri sér þegar hún var að taka fyrstu skrefin með landsliðinu:

„Já, mér finnst það. Ingibjörg kom til dæmis í leikinn á móti Brasilíu [innsk.: sinn annan A-landsleik í júní] eins og hún hefði spilað 100 landsleiki áður. Þegar ég spilaði fyrst fékk ég að fara inn á í þrjár mínútur í lokin og það var bara „vííí“, geðveikt gaman. Mér finnst þær einhvern veginn betri og tilbúnari fyrir stærri hlutverk,“ sagði Fanndís.

Fyrsti leikur Íslands á EM er á þriðjudagskvöld þegar liðið mætir Frakklandi í Tilburg.

mbl.is

LEIKIR Í DAG - 18. APRÍL

Útsláttarkeppnin

LEIKIR Í DAG - 18. APRÍL

Útsláttarkeppnin