Sumar þurftu smá knús fyrir svefninn

Hallbera Guðný Gísladóttir mætti hjólandi á æfingasvæði íslenska liðsins í …
Hallbera Guðný Gísladóttir mætti hjólandi á æfingasvæði íslenska liðsins í morgun en hjólreiðar, bókasafnsferðir og tölvuleikjaspil er meðal þess sem leikmönnum stendur til boða á milli æfinga og funda í Ermelo. mbl.is/Sindri

Leikmenn íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu hafa ýmislegt að gera sér til dundurs á milli æfinga og funda fyrir leikinn við Frakkland á þriðjudag á Evrópumótinu í Hollandi.

Íslenski hópurinn dvelur á hóteli í smábænum Ermelo en liðið var á sama hóteli þegar það mætti Hollendingum í vináttulandsleik í apríl og leikmenn kannast því vel við sig. Hallbera Guðný Gísladóttir og Fanndís Friðriksdóttir sátu fyrir svörum á fréttamannafundi í morgun og voru spurðar út í þá afþreyingu sem leikmönnum stendur til boða.

„Við erum með Playstation, spil og fleira,“ sagði Fanndís. „Harpa [Þorsteinsdóttir] stal FIFA-leik af eldri stráknum sínum,“ sagði Fanndís létt og uppskar hlátur. „Svo fengum við að horfa á Ég man þig í gær,“ bætti Hallbera við, en íslenski spennutryllirinn, eftir sögu Yrsu Sigurðardóttur, fór misvel í mannskapinn: 

„Fólk var misbratt eftir myndina. Sumar þurftu smá knús áður en þær fóru að sofa. Svo voru þjálfararnir að banka í rúðurnar og svona í miðri mynd,“ sagði Hallbera, lauflétt í bragði.

Ánægðar með Sunnu

Íslenska liðið horfði líka á Sunnu Rannveigu Davíðsdóttur vinna bardaga sinn við Kelly D'Angelo, en lét sér reyndar nægja að horfa á endursýningu í morgun vegna þess hve seint bardaginn var. Freyr Alexandersson landsliðsþjálfari hóf fréttamannafundinn í dag á að óska Sunnu til hamingju.

„Við vorum öll helvíti sátt með okkar manneskju,“ sagði Freyr, og Fanndís bætti því við að gaman hefði verið að sjá Sunnu klæðast íslensku landsliðstreyjunni á leið sinni í bardagann.

mbl.is

LEIKIR Í DAG - 20. APRÍL

Útsláttarkeppnin

LEIKIR Í DAG - 20. APRÍL

Útsláttarkeppnin