Hún er þekkt fyrir að henda sér í jörðina

Amandine Henry í baráttu við Sigríði Láru Garðarsdóttur. Henry krækti …
Amandine Henry í baráttu við Sigríði Láru Garðarsdóttur. Henry krækti í vítaspyrnuna sem tryggði Frökkum sigur. AFP

„Ég efast um að þetta hafi verið víti og þetta er ótrúlega svekkjandi,“ sagði Glódís Perla Viggósdóttir, varnarmaður íslenska landsliðsins í knattspyrnu, eftir 1:0-tapið gegn Frökkum á EM í kvöld.

Sigurmark Frakklands kom úr vítaspyrnu sem dæmd var þegar fimm mínútur lifðu leiks, þegar dómarinn taldi Elínu Mettu Jensen hafa brotið á Amandine Henry:

„Ég sá þetta ekki nægilega vel og get ekki fullyrt um hvort þetta var víti, en þessi leikmaður er þekktur fyrir að henda sér í jörðina,“ sagði Glódís, sem var hins vegar ánægð með frammistöðu íslenska liðsins:

„Mér fannst við spila frábæran leik. Við fórum eftir öllu sem við lögðum upp með fyrir leik. Þær fóru út úr sínu „comfort zone“, farnar að sparka boltanum langt, væla og alls konar slíkt sem að við lögðum upp með að ná þeim í. Þær sköpuðu sér ekki mikið af færum, þetta voru aðallega langskot, og mér fannst við hafa þetta í höndunum þar til að vítið kom,“ sagði Glódís, sem horfir nú strax til næsta leiks við Sviss á laugardag, en Sviss tapaði fyrir Austurríki fyrr í kvöld:

„Við vitum alveg að við erum áfram inni í þessu móti. Það bíða okkar tveir hörkuleikir og við verðum bara að vera tilbúnar í þá. Það þýðir ekkert fyrir okkur að dvelja lengi við þetta. Svona er fótboltinn og við verðum að taka það góða sem við gerðum í kvöld í leikinn við Sviss á laugardaginn. Riðillinn er þannig að allir geta unnið alla, eins og þetta mót er,“ sagði Glódís.

mbl.is

LEIKIR Í DAG - 28. MARS

Útsláttarkeppnin

LEIKIR Í DAG - 28. MARS

Útsláttarkeppnin