Anna Björk Kristjánsdóttir hlóð Ingibjörgu Sigurðardóttur lofi á æfingu landsliðsins í knattspyrnu í Hollandi í dag, þrátt fyrir að segja megi að Ingibjörg hafi náð af henni sætinu í byrjunarliði Íslands á síðustu metrum undirbúningsins fyrir EM.
Anna Björk lék í vörn Íslands nánast alla undankeppninni og liðið hélt markinu hreinu í sex af sjö leikjum sem hún spilaði. Ingibjörg fékk hins vegar tækifæri til að sanna sig í tveimur síðustu vináttulandsleikjunum fyrir EM og nýtti það nægilega vel til að byrja leikinn við Frakka í gær, þar sem hið ógnarsterka lið Frakklands vann 1:0-sigur. En það var nákvæmlega enga gremju að greina hjá Önnu Björk yfir hennar hlutskipti á varamannabekknum:
„Auðvitað var alltaf markmiðið að byrja alla leiki á þessu móti, eins og í allri undankeppninni. Ég fékk tækifæri og spilaði vel í undankeppninni og að sjálfsögðu vildi maður spila í gær, en maður tekur bara sínu hlutverki. Þetta er gríðarlega þéttur hópur og það styðja allir við alla. Við styðjum þær sem byrja og þær styðja okkur sem erum á bekknum,“ sagði Anna Björk, sem var að hefja æfingu undir stjórn Heimis Hallgrímssonar líkt og aðrir leikmenn sem ekki voru í byrjunarliðinu í gær. Hún var afar ánægð með arftaka sinn í vörninni, hina 19 ára gömlu Ingibjörgu:
„Ingibjörg komst gríðarlega vel frá sínu og það var ekki eins og hún væri að spila sinn fyrsta mótsleik. Hún er gríðarlega flott og efnileg, sterk með góða sendingafærni, yfirveguð og með mikið sjálfstraust. Hún skilaði sínu gríðarlega vel og það er flott að fá svona flotta karaktera inn í hópinn. Það sýnir sig með Ingibjörgu, Sigríði Láru og Öglu Maríu hvað okkar ungu stelpur eru að koma gríðarlega vel inn, og hvað framtíðin er virkilega spennandi,“ sagði Anna Björk.
Nánar er rætt við hana í meðfylgjandi myndskeiði.