„Dóttir“ stendur fyrir að vera grjótharðar

Fanndís Friðriksdóttir sækir að Elodie Thomis í leiknum gegn Frakklandi …
Fanndís Friðriksdóttir sækir að Elodie Thomis í leiknum gegn Frakklandi á þriðjudag, með „Friðriksdóttir“ á treyjunni. AFP

Það hefur vakið athygli sumra að leikmenn íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu eru með kenninöfn sín á treyjunum sem þær klæðast í leikjum á EM í Hollandi, í stað eiginnafna. Þannig stendur til að mynda „Gunnarsdóttir“ aftan á treyju fyrirliðans, en ekki „Sara Björk“.

Sif Atladóttir og Glódís Perla Viggósdóttir voru spurðar út í þetta á fréttamannafundi í Doetinchem í dag, þar sem Ísland mætir Sviss á morgun.

„Við leikmennirnir kusum um þetta, eins og fyrir síðustu undankeppni. Síðustu tvær keppnir höfum við haft fornöfnin á treyjunum, en í ljósi þess hvernig við erum sameinaðar undir „dóttir“-nafninu þá fannst okkur þetta passa vel inn,“ sagði Sif.

Freyr bætti við að af 23 leikmönnum hópsins hefðu 23 leikmenn kosið með því að nota eftirnöfnin. „Svo það var enginn vafi um þetta. Meira að segja Jensen og Jessen kusu svona líka,“ sagði Freyr léttur.

Sif, Glódís og aðrir leikmenn íslenska landsliðsins hafa verið duglegar að merkja færslur sínar á Instagram, Twitter og Facebook með #dottir, en hvernig kom það til?

„Þetta kemur upprunalega úr crossfit-heiminum þar sem stjörnurnar okkar þar, sem eru miklar fyrirmyndir fyrir okkur og alla Íslendinga, fengu þetta nafn á sig, „dóttir“. Það stendur bara fyrir það að vera grjótharðar og ógeðslega flottar. Geggjaðir töffarar. Það var það sem okkur langaði að taka með okkur inn í þetta mót. Þess vegna ákváðum við að þetta yrði svolítið okkar „hashtag“ á mótinu. Þetta er eitthvað sem einkennir okkur, gefur okkur aukaorku og er séríslenskt,“ sagði Glódís.

mbl.is

LEIKIR Í DAG - 29. MARS

Útsláttarkeppnin

LEIKIR Í DAG - 29. MARS

Útsláttarkeppnin