Möguleikar Íslands á að komast áfram í 8-liða úrslit eru að engu orðnir eftir að ljóst varð að Frakklandi tókst ekki að sigra Austurríki í síðari leik C-riðils í kvöld á EM kvenna í knattspyrnu sem fram fer í Hollandi.
Lokatölur í leik Frakklands og Austurríkis urðu 1:1 sem þýðir að Ísland er stigalaust á botninum og á ekki lengur möguleika að lenda í 1. eða 2. sæti riðilsins þar sem tvö lið, Austurríki og Frakkland hafa nælt sér í 4 stig.
Austurríki trónir óvænt á toppi riðilsins með 4 stig, Frakkland hefur 4 og Sviss 3 en Ísland er hins vegar stigalaust og fær aðeins 3 stig vinni það Austurríki í lokaumferðinni.
Ísland tapaði naumlega gegn Frökkum í 1. umferð riðilsins þar sem sigurmark Frakka kom seint úr vítaspyrnu. Ísland tapaði svo á svekkjandi hátt gegn Sviss í kvöld, 2:1, og stólaði því á Frakka að vinna báða sína leiki, enda hefði það haldið möguleikum Íslands opnum. Svo fór hins vegar ekki.
Austurríki komst raunar yfir með marki frá Lisa Makas, 1:0, á 27. mínútu. Á 51. mínútu jafnaði Amandine Henry metin, en lengra komust Frakkar ekki.