„Þetta var bara eins og hver annar leikur,“ sagði Sveindís Jane Jónsdóttir, landsliðskona, í samtali við RÚV eftir 1:1 jafntefli gegn Belgíu í fyrsta leik Íslands á Evrópumóti kvenna í knattspyrnu í Manchester í dag.
Sveindís var útnefnd maður leiksins af UEFA eftir leik.
„Við áttum meira skilið, við fengum fullt af góðum færum, dauðafærum og hefðum getað skorað úr vítinu, en svona er þetta bara. Við hefðum getað fengið meira út úr þessu, við fáum klaufalegt víti á okkur, en svona er þetta bara og við komum sterkari til baka í næsta leik.“
Var eitthvað í leik Belgíu sem kom ykkur á óvart?
Nei alls ekki, við vorum búnar að undirbúa okkur undir þetta allt og ætluðum að spila vel og mér finnst við hafa gert það með því að skapa okkur fullt af færum sem við hefðum getað nýtt betur en það dettur með okkur í næsta leik.“
Varstu stressuð fyrir fyrsta leiknum þínum á stórmóti?
„Nei alls ekki, mér fannst þetta bara vera eins og hver annar leikur. Þetta er alltaf bara fótbolti og ég reyni ekki að pæla í mikilvægi leiksins. Ég vil bara spila minn leik alltaf sama við hverja ég er að spila og í hvaða móti, mér leið bara vel.“
Hvaða smáatriði þurfið þið að laga?
„Betri fyrirgjafir, fyrirgjafirnar mínar voru ekki frábærar. Þær voru ekki að koma inn í teiginn né rata vel á mann. ég held að við verðum að fínpússa það betur og nýta færin betur og svo halda boltanum betur þegar við þurfum ekki að drífa okkur,“ sagði Sveindís að lokum.