Jamie Carragher hefur leikið frábærlega sem miðvörður með Liverpool. Það dugir honum þó ekki til að komast að í þeirri stöðu hjá enska landsliðinu en reiknað er með að Carragher verði í stöðu vinstri bakvarðar á laugardaginn þegar Englendingar sækja Ísraelsmenn heim í undankeppni Evrópumótsins í knattspyrnu. Carragher segir að hann sé sáttur við sitt hlutskipti, enda sé hann að keppa við tvo af bestu miðvörðum heims.
„Ég myndi að sjálfsögðu vilja spila sem miðvörður með landsliðinu en þeir John Terry og Rio Ferdinand voru líklega tveir okkar bestu menn í heimsmeistarakeppninni síðasta sumar. Það er ekki hægt að deila um þetta. Í mínum augum er John Terry besti miðvörður heims, það hefur enginn verið betri en hann undanfarin þrjú til fjögur ár. Svo erum við með Rio sem var einn sá albesti á HM, 30 milljón punda varnarmaður, þannig að ég hef enga stöðu til að vera að kvarta yfir því að fá ekki að spila sem miðvörður. Þetta eru leikmenn í heimsklassa og þegar ég er með landsliði Englands reyni ég að læra sem mest að þeim því það er stöðugt hægt að bæta sig," sagði Carragher.
„Ég er tilbúinn til að spila hvaða stöðu sem er með landsliðinu. Ég er þó kominn með eina 30 landsleiki og á vonandi eftir að spila nokkra enn. Það er alltaf samkeppni um stöðurnar í enska landsliðinu og við eigum nokkra af bestu leikmönnum heims. Því miður eru þeir allir miðverðir! En með landsliðinu er maður hæstánægður með allar stöður og ef þjálfarinn telur mig geta gert gagn sem bakvörður, þá er það frábært," sagði Jamie Carragher.